Innlent

Ungur Grænlendingur dæmdur til fangelsisvistar fyrir hassinnflutning

Jakob Bjarnar skrifar
Hasshundurinn Nelson að störfum í Leifsstöð. Í dag var ungur maður dæmdur í fangelsi fyrir tilraun til innflutnings á fimm kílóum af hassi.
Hasshundurinn Nelson að störfum í Leifsstöð. Í dag var ungur maður dæmdur í fangelsi fyrir tilraun til innflutnings á fimm kílóum af hassi.
Maður sem reyndi að smygla til landsins rúmum fimm kílóum af hassi var í dag dæmdur til tíu mánaða fangelsisvistar. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem sá dæmdi hefur sætt frá 8. júlí í sumar. Þá segir í dómsorði að hassið verði gert upptækt og að sá ákærði greiði sakarkostnað, 200 þúsund krónur, til verjanda síns Úlfars Guðmundssonar. Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Maðurinn, sem ekki er nafngreindur í dómsorði, er grænlenskur ríkisborgari og var hann gripinn við komu til landsins frá Kaupmannahöfn, en þá fundust fíkniefnin í farangri hans; innpökkuð í 54 pakkningar. Ákærði er ungur að árum, fæddur 1994 og hefur ekki sætt refsingu áður hér á landi og segir í dómnum að tillit sé tekið til aldurs mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×