Innlent

Tekjur einstaklinga af arði jukust um helming milli ára

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Samanlagðar skuldir heimila landsins nema tæpum 1.768 milljörðum króna og hafa dregist saman um rúmt prósent milli ára. Tekjur einstaklinga af arði nema tæpum 30 milljörðum króna og hækkar sú upphæð um ríflega helmning milli ára. Þetta er meðal þess sem kemur fram í upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu.

Ofgreiðsla einstaklinga á tekjuskatti og útsvari á síðasta ári nam rúmum 9,3 milljörðum króna. Einstaklingum sem fá almennar vaxtabætur frá ríkinu fækkar um tíu prósent milli ára. Tekjur vegna almenns tekjuskatt námu 117,5 milljörðum króna og dreifist niður á 169 þúsund framteljendur.

Um næstu mánaðarmót mun ríkissjóður greiða tæpa nítján milljarða vegna barnabóta, vaxtabóta og ofgreiðslu tekjuskatts og fjármagnstekjuskatt. Upphæðin er rúmum milljarði hærri en í fyrra en sú hækkun skýrist einkum af hækkun á ofgreiddri staðgreiðslu tekjuskatts og útvars.

Tæplega 38 þúsund fjölskyldur fá greiddar vaxtabætur en upphæðin nemur um sjö milljörðum króna. Það er lækkun um 12,6% milli ára. 48 þúsund fjölskyldur fá barnabætur sem er 9,5% fækkun frá fyrra ári. Upphæð meðalbótanna er hins vegar öllu hærri en í fyrra.

Útvarpsgjald nemur 3,4 milljörðum króna eða 17.800 krónur á hvern framteljanda á aldrinum 16-69 ára. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×