Innlent

Eldur kviknaði í eldhúsi Sigló Hótel

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Slökkviliðsstjórinn virðir skemmdirnar fyrir sér.
Slökkviliðsstjórinn virðir skemmdirnar fyrir sér. mynd/jón ólafur björgvinsson sigló.is
Eldur kviknaði í eldhúsi Sigló Hótel upp úr klukkan tólf í dag. Einn var fluttur á sjúkrahús í kjölfar brunans. Greiðlega gekk að slökkva eldinn.

„Við fengum boð frá Neyðarlínunni um tuttugu mínútur yfir tólf og við hlupum í raun yfir götuna,“ segir Ámundi Gunnarsson slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar. Slökkvistöðin er skammt frá hótelinu.

„Það fór reykkafari inn í eldhúsið og sá að þar var maður. Ég veit ekki hvort við náðum honum út eða hvort hann komst þaðan sjálfur en út fór hann. Í kjölfarið kæfðu þeir eldinn og hófu að reykræsta húsið.“

Sigló Hótel opnaði fyrir skemmstu og tók við fyrstu gestum sínum um miðbik þessa mánaðar. Samkvæmt Ámunda sluppu svefnálmurnar vel en eldhúsið er mjög illa farið.

„Það var einn fluttur á sjúkrahús til Akureyrar. Hann hafði skorið sig og sennilega fengið vott af reykeitrun,“ segir Ámundi.

Reyk lagði frá hótelinu sem er glænýtt.mynd/árni karl harðarson
Eldhús hótelsins er mikið skemmt.mynd/jón björgvin ólafsson sigló.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×