Innlent

Leitar bjargvættarins: Stöðvaði stjórnlausan bíl með vinstri hendi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Atvikið átti sér stað við hringtorgið við Korputorg.
Atvikið átti sér stað við hringtorgið við Korputorg. Vísir/GVA
„Ég skil þetta ekki ennþá. Ég á ekki orð yfir þennan mann, hvað hann var snöggur og að hafa dottið í hug að gera þetta,“ segir Baldvin E. Albertsson. Hann leitar að manninum sem tókst að stöðva bíl hans með vinstri hendi þegar bíllinn rann mannlaus afturábak eftir Vesturlandsvegi.

Málið er hreint út sagt ótrúlegt en málavextir eru þeir að á laugardag um fjögur eða fimmleytið er Baldvin að keyra heim til sín í Mosfellsbæ. Hann ákveður að stöðva nálægt hringtorginu við Korputorg á Vesturlandsvegi til þess að teygja úr fótunum.

„Ég er svolítið veikur í fótunum og stöðva bílinn í vegarkantinum. Það var skipt á hné á hægri fæti og ég verð stundum svolítið þreyttur að sitja í sömu stellingunni. Síðan set ég í bakkgír og bakka aðeins til að staðsetja mig betur í vegarkantinum.“ Að því loknu snýr Baldvin sér við og situr með báða fætur út úr bílnum.

Baldvin biður manninn að hafa samband.Vísir/Baldvin
Gleymdi að taka bílinn úr bakkgír

„Ég hef sjálfsagt gleymt að setja hann í park og hann er enn í bakkgírnum. Þar sem ég sit í sætinu með fæturna út úr bílnum þá fer hann bara af stað,“ rifjar Baldvin upp og á ekki orð yfir klaufaskapinn í sjálfum sér.

„Bíllinn hendir mér út þannig að bíllinn rennur mannlaus af stað með dyrnar opnar.“ Baldvin segist hafa reynt að hlaupa á eftir bílnum en að það hafi reynst honum, 72 ára gömlum, erfitt. „Hurðin er alltaf opin og mig vantaði að komast fram fyrir hurðina inn í bílinn. Allt í einu sé ég bíl stoppa í kantinum, mann rífa upp hurðina og hlaupa í áttina til mín. Hann stekkur inn í bílinn minn og setur vinstri hönd á bremsuna.“

Baldvin segir Usain Bolt mega vara sig þar sem maðurinn hafi þurft að hlaupa ansi hratt til að ná bílnum. „Guð minn góður ef bíllinn hefði farið út á veg. Hann keyrði beint afturábak og ef hann hefði keyrt út á veginn hefði það getað valdið stórslysi,“ segir Baldvin sem enn á ekki orð yfir afrek mannsins. Hann vill gjarnan ná af honum tali og þakka fyrir aðstoðina og lýsir því eftir honum.

Í fullkomnu sjokki og náði ekki nafninu

„Ég er nefnilega í hálfgerðu sjokki eftir þetta, sest inn í bílinn og hann kemur og klappar mér í bak og fyrir; spyr hvort það sé ekki í lagi með mig og svona en rauk svo af stað. Ég náði ekki að spyrja hann hvað hann hét eða neitt, rétt náði að kalla á eftir honum þakkarorð. Hann var að flýta sér eins og hann gat, líklega vegna þess að hann hafði skilið bílinn sinn eftir í kantinum.“

Baldin á erfitt með að lýsa manninum en segir hann hafa verið meðalmann á stærð og einhvers staðar á milli tvítugs og þrítugs. „Mig langar svo að hafa upp á þessum manni.“

Baldvin deildi sögunni á Facebook í flýti en færslu hans má sjá hér að neðan. Hann gefur upp símanúmerið sitt og biður þá sem hafa upplýsingar um mál hans um að hafa samband.

Vinir og vandamenn á facebook mig langar að biðja ykkur um að hjálpa mér dálítið sem getur verið mikilvægt fyrir mig og...

Posted by Baldvin E. Albertsson on Tuesday, July 28, 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×