Innlent

Svona virkar njósna­búnaðurinn sem löggan hafði á­huga á

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Von á yfirlýsingu frá lögreglunni vegna Wikileaks-gagna um samskipti lögreglumanns við Hacking Team.
Von á yfirlýsingu frá lögreglunni vegna Wikileaks-gagna um samskipti lögreglumanns við Hacking Team. vísir/Getty Images
Upplýsingafulltrúi lögreglunnar vildi ekki svara spurningum fréttastofu um málið samskipti íslensks rannsóknarlögreglumanns sem var í samskiptum við ítalska fyrirtækið Hacking Team árið 2011. Fyrirtækið sérhæfir sig í að búa til tæknilausnir fyrir stjórnvöld víða um heim til að hlera og fylgjast með tækjanotkun fólks.

Upplýsingafulltrúinn sagðist ekki getað gefið upplýsingar að svo stöddu um hvort lögreglan ætti í viðskiptum við fyrirtækið. Vísaði hann til þess að yfirlýsing yrði send fjölmiðlum vegna málsins í dag. Ekki náðist í Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóri en þau svör fengust að hún væri í sumarfríi.

Málið snýst um upplýsingar sem koma fram í 415 gígabæta gagnapakka Hacking Group sem Wikileaks hefur birt. Þar kemur fram að lögreglumaðurinn hafi óskað eftir aðstoð við að brjótast inn í farsíma og lýst yfir sérstökum áhuga á að komast yfir njósnabúnað til að fylgjast með rafrænum samskiptum fólks. 

Í meðfylgjandi myndbandi, sem Wikileaks birti á vefsíðu sinni, má sjá kynningu sem fyrirtækið dreifði til viðskiptavina og á lokuðum ráðstefnum þar sem njósnabúnaðurinn var auglýstur. 

Tölvupóstsamskipti lögreglumannsins og fyrirtækisins áttu sér stað árið 2011 en ekki er ljóst hvernig eða hvenær þeim samskiptum lauk. Þau virðast hefjast á kynningarpósti sem fyrirtækið sendi lögreglumanninum þar sem lausnir fyrirtækisins til að koma fyrir földum njósnabúnaði í snjallsímum og tölvum.

Lögreglumaðurinn, sem starfar sem rannsóknarlögreglumaður á tölvurannsókna- og rafeindadeild lögreglunnar, svaraði þeim pósti og bað um frekari upplýsingar um falinn njósnabúnað í snjallsímum. Síðar í samskiptum sínum við fyrirtækið spyr hann sérstaklega um hvort búnaðurinn geti hlerað netsímtöl úr farsímum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×