Innlent

Úr umferðardeild lögreglunnar á stórmót í mótorhjólaakstri

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Inga Birna Erlingsdóttir lögreglumaður í umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu keppir í mótorhjólaakstri í Suður Afríku í haust og reynir að komast á stórmót í Taílandi á næsta ári.

Inga Birna hefur verið valin í tíu manna úrtak í fyrsta alþjóðlega kvennalið GS bikars BMW. Fram undan er sex daga undankeppni sem haldin verður í Suður Afríku og að henni lokinni verða valdar þrjár konur til aðalþátttöku í aðalkeppninni í Taílandi.

„Ég er að fara að taka þátt í undankeppni úti í Suður Afríku ég var valin úr hópi 119 umsækjanda frá 28 löndum til að hitta níu aðrar konur þarna úti en BMW hjólaframleiðandinn óskaði eftir konum úr öllum heiminum til að vera fulltrúi kvenna og síns lands og keppa á stórmóti í Taílandi á næsta ári,“ segir Inga Birna en þátttökuliðin koma víða að.

Inga Birna segir munu reyna á hæfni, þol og samvinnu. „Þú þarft að vera vel þér í malarsakstri við erfiðar aðstæður, líkamlega og andlega sterkur, tilbúinn að takast á við erfiðar áskoranir, svo þarftu að vera tilbúinn að vinna í liði en ekki bara sem einstaklingur.

Hún vill hvetja konur til þess að taka þátt í þessu skemmtilega sporti en hún þekkir ekki margar hér á landi.

„Á heimsvísu held ég að konur séu margar í þessum akstri en á Íslandi veit ég ekki til þess að þær séu marga. Mig langar til þess að hvetja fleiri konur til að mynda saman hóp og ferðast saman í ævintýraferðamennsku.“

Inga Birna leitar styrktaraðila til að styðja við undirbúning ferðalagsins. Þeir sem vilja veita henni vegsauka eða þær konur sem vilja setja sig í samband við hana og hafa áhuga á því að taka þátt í sportinu geta haft samband við hana út frá heimasíðu hennar, þar sem einnig má fræðast meira um ævintýralegan akstur hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×