Innlent

Gagnrýnir að ekkert hundaeftirlit sé virkt um helgar: Husky-hundur nágrannans ógnaði tíu ára syni hennar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Kolbrún Ýr Árnadóttir furðar sig á því hvers vegna ekkert hundaeftirlit sé virkt um helgar.
Kolbrún Ýr Árnadóttir furðar sig á því hvers vegna ekkert hundaeftirlit sé virkt um helgar. vísir
Tíu ára syni Kolbrúnar Ýrar Árnadóttur var illilega brugðið síðastliðið föstudagskvöld þegar hann var að koma heim til sín og Husky-hundur nágrannans ógnaði honum.

„Þetta er um tíuleytið og ég heyri að strákurinn minn er að koma heim. Það er stutt á milli lóðanna hjá okkur og ég heyri líka í hundinum, svona árásarurr. Ég stekk þá upp úr sófanum og sé son minn alveg klesstan upp við húsvegginn og hundurinn er kominn að honum. Hann bítur hann ekki en kemur við höndina á syni mínum sem er dauðhræddur,“ segir Kolbrún í samtali við Vísi.

Sonur hennar kom svo inn og fór að hágráta. Kolbrún segir hann ekki þora að nota útidyrahurðina núna.

„Hundurinn er bundinn en bandið er alltof langt því hann kemst yfir á okkar lóð. Þegar ég kem út er dóttir þeirra að toga hundinn í burtu. Ég fer þarna út og er alveg brjáluð og nágrannar mínir ná ekki að segja neitt. Ég hef ekkert talað við þau síðan og þau hafa ekkert haft samband við mig.“

Kolbrún segist hafa hringt í lögregluna á föstudagskvöldið en hún gat ekkert gert þar sem hundurinn beit ekki strákinn.

„Sonur minn upplifir þetta auðvitað sem árás en samkvæmt lögreglunni er það ekki árás nema að hundurinn bíti. Ég er núna bara að velta fyrir mér hvert ég geti leitað vegna hundsins en lögreglan benti mér á Hundaeftirlitið.“

Hundaeftirlit Reykjavíkurborgar er hins vegar lokað um helgar og furðar Kolbrún sig á því.

„Ég mun að sjálfsögðu hafa samband við Hundaeftirlitið á morgun en mér finnst að það verði eitthvað eftirlit virkt um helgar þegar svona mál koma upp.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×