Innlent

Segja kjaradeilur heilbrigðisstétta hafa skaðleg áhrif á nemendur

Samúel Karl Ólason skrifar
"Áhrifin á heilbrigðisþjónustuna í landinu eru augljós og alvarleg.“
"Áhrifin á heilbrigðisþjónustuna í landinu eru augljós og alvarleg.“ Vísir/Vilhelm
Deildarráð Læknadeildar Háskóla Íslands segir kjaradeilu heilbrigðisstarfsmanna við ríkið við ríkið hafa haft skaðleg áhrif á nám nemenda í grunn- og framhaldsnámi í ákveðnum greinum. Nánar tiltekið er átt við verkfalla Félags geislafræðinga, félags íslenskra náttúrufræðinga, Félags lífeindafræðinga og Félags hjúkrunarfræðinga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðinu þar sem það ítrekaði ályktun deildarfundar Læknadeildarinnar frá 13. maí. Ráðið lýsir yfir þungum áhyggjum af menntun heilbrigðisstétta og framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins.

Í ályktuninni kemur eftirfarandi fram:

„Áhrifin á heilbrigðisþjónustuna í landinu eru augljós og alvarleg. Ef vinnudeilan dregst enn frekar á langinn, blasa við alvarlegar afleiðingar fyrir háskólastarfið. Á verkfallsdögum fellur niður öll vinna þeirra nemenda sem eru ráðnir í rannsóknaverkefni á Landspítala háskólasjúkrahúsi eða öðrum heilbrigðisstofnunum ríkisins, sem kemur niður á vísindastarfi og rannsóknastyrkjum.“

Þar kemur einnig fram að verkfallið hafi veruleg áhrif á klíníska kennslu og tækifæri til klínískrar þátttöku.

„Í samþjöppuðu sérhæfðu námi er mikil röskun því óumflýjanleg og er hætta á að nemar nái ekki að ljúka námi á tilsettum tíma. Tjónið er að sjálfsögðu mikið fyrir nemendurna sjálfa en ekki síður fyrir heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×