Innlent

„Til voru menn sem hældu sér af því að hafa "tuskað til kjeddlinguna“ í inniverunni“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Anna Kristjánsdóttir, vélfræðingur, var til sjós á 20 ár.
Anna Kristjánsdóttir, vélfræðingur, var til sjós á 20 ár. vísir
Anna Kristjánsdóttir, vélfræðingur, kemur Hildi Lilliendahl til varnar í pistli sem hún skrifar á bloggsíðu sína í dag. Pistillinn ber titilinn „Hugleiðingar um heimilisofbeldi sjómanna.“ Ummæli sem Hildur lét falla á Facebook um sjómenn á sjómannadaginn, en tók síðar út, hafa vakið mikla athygli og töluverða reiði.

Í stuttu samtali við Vísi á mánudag sagðist Hildur hafa fjarlægt ummælin um leið og hún áttaði sig á því hve margir misskildu hana, en Anna leggur út af viðbrögðunum við færslu Hildar í pistli sínum. Segist hún hafa verið í fríi í París á sjómannadaginn og hafa fengið ákúrur fyrir það en Anna var á sjó í tuttugu ár en starfar nú hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

„Svo kom ég heim í rokið og rigninguna, atið í vinnunni, hávaðann og stressið og neikvæðu umræðuna í þjóðfélaginu og það sem efst var á baugi, fáein orð sögð í fljótfærni í garð sjómanna sem fljótlega hafði verið eytt og stór hluti þjóðarinnar reif sig ofan í rassgat af hneykslan yfir orðum ungu konunnar sem misst hafði orðin út úr sér og eytt þeim.  Allt í einu var umburðarlyndið fyrir bí enda stúlkan þekkt fyrir háværa baráttu fyrir kvenréttindum og íslenska þjóðin jós yfir hana heilögum svívirðingum.“

„Heyra mátti ofbeldið í þarnæstu íbúð“

Anna segist hafa reynt að bera blak af Hildi á Facebook en hafi samstundis verið „skotin í kaf af reiðum körlum og kerlingum sem virtust eiga sér það eitt að áhugamáli að hata umrædda konu.“ Anna rifjar síðan upp fyrstu árin sín þegar hún bjó fyrst í illa byggðum timburhúsum og „heyra mátti heimilisofbeldið í þarnæstu íbúð og jafnvel íbúðum lengra í burtu.“

Svo rifjar hún upp fyrstu árin sín á sjónum:

„[...] á gömlum nýsköpunartogurum þar sem margir komu dauðadrukknir um borð þegar farið var út á sjó og til voru menn sem hældu sér af því að hafa „tuskað til kjeddlinguna“ í inniverunni. Ekki var álitið mikið á þessum hetjum hafsins, komu kannski í land á mánudegi og flýttu sér í Ríkið til að kaupa sér bokku eða tvær sem voru svo teknar hvíldarlaust út áður en haldið var til hafs á ný. Margir kunnu sér ekki hóf og þessum inniverum fylgdi talsvert ofbeldi og inniverurnar urðu sem martröð fyrir börnin sem máttu horfa upp á þennan viðbjóð.“

Pistil Önnu má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Segir marga misskilja færslu sína um sjómenn

"Hetjur hafsins komu líka í land, duttu í það og lömdu konurnar sínar,“ sagði Hildur Lilliendahl í tilefni sjómannadagsins í gær. "Við skulum ekki gleyma öllum skuggahliðunum á þessari menningu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×