Innlent

Ólýsanlegt að langa til að elska barnið sitt en geta það ekki

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
„Þetta byrjaði einhvern veginn á táningsárunum hjá mér. Ég veit ekki alveg hvað gerðist,“ segir Jóhann Óli Eiðsson, blaðamaður á 365 miðlum, en hann tjáði sig um djúpstætt þunglyndi í Íslandi í dag í kvöld.

„Smám saman hætti ég að finna fyrir hlutum. Ég hætti að vera glaður, hætti að vera leiður, var einhvern veginn bara flatur,“ sagði Jóhann Óli. 

Hann birti pistil á bloggsíðu sinni síðastliðna helgi sem hefur vakið mikla athygli. Pistillinn ber heitið „Að hata barnið sitt“ en hann bendir á að nauðsynlegt sé að samfélagið viðurkenni möguleika þess að nýbakaðir feður glími við fæðingarþunglyndi. En Jóhanni leið illa löngu áður en hann eignaðist barnið.

Ég gerði aldrei hluti sem mig langaði að gera aðallega af því mig langaði ekki neitt. Allt sem ég gerði var leiksýning til að fela það hvernig mér leið í raun og veru.“

Það var sérstakt fyrir Jóhann Óla að halda á barninu sínu í fyrsta sinn.Mynd/Úr einkasafni
Jóhann Óli útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri, náði fyrsta árinu í lögfræði við Háskóla Íslands, var í sambandi og komst svo að því að hann ætti von á barni. Hann var vongóður um að barnið hefði jákvæð áhrif á hann og að allt yrði betra í lífinu eftir að hann kæmi í heiminn. En annað kom í ljós þegar barnið fæddist.

„Ég sá hann og, ég náttúrulega hef bara upplifað það að verða faðir einu sinni og það er ábyggilega ekki til nein bók um hvernig þér á að líða, en ég er nokkuð viss um að ég átti ekki að finna það sem ég fann eða það er allavega ekki talið gott. Því að ég horfði á hann og þá var eins og ég hefði fattað: „Fokk, þetta er að gerast, ég er búinn að koma mér út í þetta, ég veit ekkert hvað ég er að fara að gera. Hvernig í fjandanum er ég að fara að blöffa þetta?“  

Viðtalið við Jóhann má sjá hér að ofan í heild sinni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×