Innlent

„Erum að sjá mjög afgerandi árangur af fiskverndaraðgerðum í þorski“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hafrannsóknastofnun leggur til 239 þúsund tonna þorskkvóta á næsta fiskveiðiári sem er yfir 20 þúsund tonna aukning frá yfirstandandi ári.
Hafrannsóknastofnun leggur til 239 þúsund tonna þorskkvóta á næsta fiskveiðiári sem er yfir 20 þúsund tonna aukning frá yfirstandandi ári. vísir/stefán
Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, segir að heilt yfir sé verið að nýta flesta, ef ekki alla nytjastofna sjávar þannig að veiðiálaginu er stýrt í samræmi við árgangastyrk þeirra.

„Það sem er náttúrulega merkilegast og mikilvægast í þessu er að við erum að sjá mjög afgerandi árangur af fiskverndaraðgerðum sem við lögðum til í þorski fyrir 10 árum síðan og settar voru af stað 2007. Stjórnvöld hafa síðan haldið því til streitu alveg og sýnt skilning á mikilvægi þessa,“ segir Jóhann.

Hafrannsóknastofnun leggur til 239 þúsund tonna þorskkvóta á næsta fiskveiðiári sem er yfir 20 þúsund tonna aukning frá yfirstandandi ári. Jóhann segir mjög ánægjulegt hvernig tekist hefur til með þorskinn.

Hófsem nýtingarstefna í verki

„Árið 2007 leggjum við til gríðarlegan samdrátt í þorskkvóta. Tilgangurinn var að reyna að snúa við þeirri þróun að nýliðun í stofninum var orðin svo veik. Við tengdum það að einhverju leyti við veikan hrygningarstofn og með því að draga svona mikið úr sókninni tókst að stækka hrygningarstofninn. Við sjáum því þessa aukningu núna frá ári til árs.“

Jóhann segir að við séum að sjá mjög hófsama nýtingarstefnu í verki sem geti gefið aukinn afla á komandi árum, stöðugleika í veiði og meiri hagkvæmni í veiðum. Þá nefnir hann einnig sterkan árgang í ýsu eftir sex léleg ár sem sé afar mikilvægt.

Léleg nýliðun í hlýsjávarstofnum

Aðspurður hvort einhverjir stofnar séu veikir um þessar mundir nefnir hann nokkra hlýsjávarstofna.

„Þetta eru frekar litlir stofnar sem eru fyrst og fremst sunnan við landið eins og langa keila, blálanga, skötuselur og humar. Það hefur gætt lélegrar nýliðunar í þessum stofnum á undanförnum árum sem við höfum ekki náð að átta okkur alveg á af hverju er. Líklegast tengist þetta að einhverju leyti þessum hlýsjávaraðstæðum sem hafa verið á síðustu árum,“ segir Jóhann.

Léleg nýliðun er því ávísun á samdrátt á næstu árum ef ekki verður breyting á.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×