Innlent

Manndráp í Stelkshólum: Eiginmaðurinn ósakhæfur og skal sæta öryggisgæslu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn leiddur fyrir dómara þann 27. september síðastliðinn.
Maðurinn leiddur fyrir dómara þann 27. september síðastliðinn. Vísir/Stefán
Karlmaður um þrítugt hefur verið dæmdur til þess að sæta réttaröryggisgæslu. Maðurinn var ákærður af ríkissaksóknara fyrir manndráp á hendur eiginkonu sinni í íbúð þeirra í Stelkshólum í Reykjavík þann 27. september síðastliðinn. Var maðurinn talinn hafa banað henni með því að þrengja að öndunarvegi hennar. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Maðurinn var sýknaður af refsikröfu þar sem hann er metinn ósakhæfur. Hann var dæmdur til að sæta öryggisgæslu sem var varakrafa ríkissaksóknara. Maðurinn hefur verið vistaður á réttargeðdeild Landspítalans undanfarna mánuði. Maðurinn hélt fram sakleysi sínu við yfirheyrslur hjá lögreglu í kjölfar handtökunnar. Sagði hann konuna hafa svipt sig lífi.

Vísir/Egill Aðalsteinsson
Í tilkynningu frá lögreglu í september kom fram að maðurinn hafði samband við annan aðila sem lét lögreglu vita skömmu eftir miðnætti umrædda nótt. Við komu lögreglu á vettvang vaknaði strax grunur um að andlát konunnar hafi borið að með saknæmum. Börn hjónanna, tveggja og fimm ára, voru á heimilinu nóttina sem konan lést. Í kjölfarið voru börnin í umsjá barnaverndaryfirvalda sem komu þeim í vistun hjá vinafólki hjónanna.

Rannsókn málsins tók nokkuð langan tíma en fjóra mánuði tók að fá niðurstöður krufningar auk þess sem geðmat fór fram á manninum. Nágrannar mannsins voru slegnir þegar rætt var við þá í september. Hafði einn á orði að um virkilega vinalegt og gott fólk væri að ræða.

„Þau voru síbrosandi og virkilega góð við hvort annað,“ sagði einn nágranninn í samtali við Vísi.


Tengdar fréttir

Segir eiginkonu sína hafa svipt sig lífi

Maðurinn sem grunaður er um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana í Stelkshólum á laugardag, heldur því fram að konan hafi tekið eigið líf. Hann hefur staðfastlega haldið fram sakleysi sínu í skýrslutökum hjá lögreglu.

Mannslát í Hafnarfirði: Hin grunaða neitaði sök

Konan sem ákærð er fyrir að hafa banað sambýlismanni sínum á heimili þeirra við Skúlaskeið í Hafnafirði í febrúar neitaði í morgun sök við þingfestingu í Héraðsdómi Reykjaness.

„Virkilega vinalegt og gott fólk“

Nágranni hjónanna í Stelkshólum í Breiðholti segir allt hafa verið með kyrrum kjörum á stigaganginum í gærkvöld. Hann talaði við hjónin síðdegis í gær og sagði ekkert benda til þess að harmleikur væri yfirvofandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×