Innlent

Fann 35 sprautunálar: „Það eru alltaf börn að leika sér þarna“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Brynjar Örn býr í Hafnarfirði og barnið hans leikur sér í hverfinu.
Brynjar Örn býr í Hafnarfirði og barnið hans leikur sér í hverfinu.
„Ég taldi þrjátíu og fimm sprautunálar og sprautur þarna,“ segir Brynjar Örn Víðisson en hann kvartar undan því að byggingargrunnur sem hafi staðið óafgirtur og óafskiptur í fimm ár og safni rusli og því sem verra er, sprautunálum. Byggingargrunnurinn stendur við Vellina í Hafnarfirði.

Í gærkvöldi þar sem hann gekk frá heima hjá sér kom sonur hans heim og dinglaði á bjöllunni eftir að hafa verið að leika sér úti. Þegar Brynjar fór og opnaði stóð sonur hans fyrir utan og hélt á sprautu með sprautunál í hendinni. Kristni brá skiljanlega.

Hér safnast rusl og sprautunálar.Vísir/Brynjar
Óttaðist að sonur sinn hefði stungið sig á sprautunálinni

„Ég sagði honum að henda þessu strax frá sér og spurði hann hvort hann hefði stungið sig á nálinni.“ Drengurinn sagðist ekki hafa stungið sig. „En ég óttaðist að hann myndi reyna að fela það því að hann héldi að ég yrði reiður þar sem ég hef margoft sagt honum að taka ekki svona upp. Þannig að ég þráspurði hann og gekk úr skugga um að hann hefði ekki stungið sig.“  

Sonur Brynjars fór þvínæst með hann á þann stað þar sem sprautunálarnar fundust en þar var allt morandi í þeim. Það var í byggingargrunninum fyrrnefnda. „Þessi grunnur hefur verið slysagildra síðan ég flutti hingað. Það var fyrir fimm árum síðan.“ Hann segir svæðið þó hafa verið hættulegt síðastliðin tuttugu ár. „Ég veit ekki hversu oft við höfum beðið um að þetta svæði sé afgirt með einhverjum hætti. Það var að vísu sett upp timburgirðing en hún fauk í fyrsta roki og þá urðu aðstæðurnar eiginlega verri. Naglaspýtur út um allt.“

Hann segir svæðið fyllast af vatni í rigningu og að það sé sífellt verið að fleygja rusli þarna ofan í. Þegar drengurinn hans kom með sprautunálar heim var honum þó öllum lokið. Strákurinn leiki sér mikið úti og þarna í grunninum.

Hættulegur fundur fyrir ung börn.Vísir/Brynjar
Algengt að sprautunálar finnist

Brynjar hringdi í lögregluna eftir fundinn.

„Eina svarið sem ég fékk frá henni var að hver og einn ætti sjálfur að taka þetta upp. Lögreglan sagði bara að það væri svo mikið af þessu og að þau hefðu ekkert efni á að sinna þessu.“ Brynjar fór því út í gærkvöldi og tók upp sprauturnar, setti í dagblað og henti í ruslið. „Lögreglan var ekkert að gefa nein fyrirmæli. Ég heyrði síðan eftir á þegar ég setti þetta á Facebook að það væri best að setja þetta í flösku eða fara með þetta í apótek og láta farga þessu.“

Þegar Brynjar hafði tínt sprauturnar upp og hent þeim tók hann eftir því að um leið voru komin börn og byrjuð að leika sér í grunninum. „Ég meina, það eru alltaf börn að leika sér þarna.“

Lögreglan í Hafnarfirði segir það algengt að sprautunálar finnist og að alla jafna taki íbúar það að sér að farga þeim. Mælt er með því að taka þær varlega upp, ef til vill með gúmmíhönskum og setja í plastflösku og skrúfa tappann vel á. Þannig er hægt að henda þeim í ruslið án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að þær stingi næsta mann.

Ekki náðist í byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×