Skoðun

Þetta er óásættanlegt

Helga María Guðmundsdóttir skrifar
Þegar verkfallið hófst voru hjúkrunarfræðingar með miklar áhyggjur af því hvernig deildir spítalans gætu staðið undir rekstri með aðeins öryggismönnun. Það kom síðar upp á daginn að sumar deildir hafa verið reknar með lágmarksmönnun inn á milli. Það eitt sýnir okkur hversu mikið álag getur verið á hverjum hjúkrunarfræðingi fyrir sig. En það hefur ekki reynt á lágmarksmönnun á öllum deildum spítalans í svona langan tíma. Nú er búið að reka spítalann stóráfallalaust í sex daga, en ég get alveg fullyrt að það er ekki hægt að reka svona stóra stofnun með lágmarksmönnun allt árið um kring. Það er hvorki sjúklingum né starfsfólki bjóðandi. Það kemur að skuldadögum.

Síðar meir þarf að sinna öllum þeim verkefnum sem ekki er hægt að annast núna vegna þess að ekki er næg mönnun til staðar. Allar þær aðgerðir sem búið er að fresta, lyfjameðferðir og myndgreiningar sem verið er að seinka, blóðprufur sem þarf að endurtaka og öðrum meðferðum sem þurfa að bíða betri tíma. Þessu þarf að sinna og því fyrr því betra fyrir skjólstæðinga okkar.

Við hjúkrunarfræðingar erum svokölluð kvennastétt og verðum það áfram verði launin ekki leiðrétt. Það á að meta nám að verðleikum. Hjúkrunarfræði er fjögurra ára háskólanám þar sem starfsemi líkamans er í fyrirrúmi. Þar er okkur kennt að bregðast við öllum þeim frávikum sem geta komið upp og gera það á yfirvegaðan og faglegan hátt. 



Eins og lýsingin hljómar þá er það mjög spennandi og krefjandi nám. Ekki var litið á þessi hefðbundnu kvennastörf sem fyrirvinnu í gamla daga og núna árið 2015 hefur það ekki enn verið leiðrétt. Það er í raun óásættanlegt. Það sem við hjúkrunarfræðingar erum að óska eftir er að störf kvenna séu metin að jöfnu við hefðbundin karlastörf og að háskólanám sem slíkt sé metið að verðleikum.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×