Innlent

Hélt ekki að hún myndi lifa af slysið

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Alexandra Ósk Magnúsdóttir, sem lenti í bílveltu ásamt tveimur börnum sínum, á Ósabotnavegi nálægt Sandgerði, um helgina, var búin að gefa upp alla von um að hún myndi lifa slysið af en óskaði þess heitt að börnunum hennar yrði bjargað. Tvær refaskyttur bar að fyrir hreina tilviljun.

Hún var að tala við dóttur sína í aftursætinu og lítur augnablik í baksýnisspegilinn, lendir í lausamöl úti í kanti og missir stjórn á bílnum, sem fór margar veltur. Hún kastaðist um bílinn, upp undir þakið og út um gluggann, þar sem hún lenti undir bílnum.

Með fjölskyldunni.Stöð 2
Vinirnir Najdan Ilievski og Nikola Tisma sáu bifreiðina fyrir tilviljun en vélin var ekki í gangi en annað stefnuljósið logaði. Þeir flýttu sér á staðinn til að kanna aðstæður en þegar þeir komu nær heyrðu þeir barnsgrát.

Tvö börn, Díana 3 ára og Sigurður Mikel 1 árs, voru föst í öryggisstólum í aftursætinu og héngu á hvolfi í beltunum. Mennirnir veltu bílnum við og sáu þá Alexöndru Ósk sem var mikið slösuð. Hún var með meðvitund allan tímann þrátt fyrir að hafa verið mikið slösuð. Hún segir að bara það að heyra þá tala saman þegar þeir nálguðust bílinn hafi fyllt hana von. Hún sé mönnunum afar þakklát, í raun sé þetta hreint kraftaverk.

Najdan segir þá Nikola hafa grátið eftir á, það hafi verið hræðileg tilhugsun að þeir hafi verið þarna fyrir hreina tilviljun, og hvað hefði getað gerst ef svo hefði ekki verið. Alexandra sem slasaðist mikið er nú úr allri hættu. Börnin sakaði ekki. Þau ætla að bjóða bjargvættum sínum heim á morgun og þakka þeim fyrir.

Í sjónvarpsfréttinni er ranglega sagt að Alexandra Ósk hafi verið að tala í síma þegar hún missti stjórn á bílnum. Hún var að tala við dóttur sína sem var í aftursæti bifreiðarinnar. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×