Innlent

Mennirnir sem björguðu konu og börnum við Garðskagaveg enn að jafna sig

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá vettvangi slyssins í gær.
Frá vettvangi slyssins í gær. Mynd/Víkurfréttir
Najd­an Ilievski og Nikola Tisma komu konu og tveimur börnum hennar til bjargar í gærkvöldi þegar þeir komu að bíl hennar sem oltið hafði út af veginum fyrir utan Reykjanesbæ. Konan er sögð á batavegi en Najdan segir þá félaga enn ekki hafa jafnað sig að fullu eftir atburði gærkvöldsins.

„Ég er ennþá ekki kominn á réttan stað eftir 24 klukkutíma, ég er alltaf að hugsa um þetta,“ segir Najdan. „Hvað ef við hefðum ekki verið á þessum stað á þessum tíma?“

Komu að bílnum á hvolfi

Bíll konunnar lenti utan Garðskagavegar um kvöldmatarleytið í gær og endaði á hvolfi. Konan lenti undir bílnum en börnin tvö sátu föst í öryggissætum sínum þegar þeir Najdan og Nikola áttu fyrstir leið hjá.

„Við erum náttúrulega bara heppnir að vera þarna á réttum stað á réttum tíma,“ segir Najdan. „Við komum að bílnum þegar hann er búinn að velta alveg út í hraun. Fyrst sjáum við ekki neitt en heyrum í krökkunum gráta.“

Þeir félagar fóru að aðstoða börnin en áttuðu sig ekki strax á að konan hefði lent undir bifreiðinni.

Bíllinn valt og lenti utan vegar.Mynd/Víkurfréttir
„Við vorum fyrst og fremst að hugsa um krakkana,“ segir Najdan. „Þeir virtust í fínu lagi, með öryggisbelti og í öryggissætum. Málið er að þau eru alveg á hvolfi og fyrsta hugsun hjá mér og vini mínum er að taka bílinn og rétta hann af.“

Þeim félögum tókst að lyfta bílnum og koma honum á hjólin en þá fyrst tóku þeir eftir konunni. Hún hafði slasast nokkuð við veltuna og henni blæddi úr höfði. Najdan segir hana hafa verið með meðvitund og að hún hafi getað róað börnin sín.

Óskar þess að hitta börnin aftur

„Eftir það tökum við krakkana inn í bíl okkar,“ segir hann. „Þar var hlýtt og vinur minn er með öryggisstóla í bílnum sínum. Svo hringir hann í 112 og ég er með slösuðu konunni. Við settum jakka yfir hana og pössuðum okkur að snerta hana ekki neitt áður en sjúkrabíllinn kom.“

Najdan segir þá félaga hafa verið í miklu uppnámi á meðan þeir  biðu sjúkrabíls og lögreglu. Konan var flutt á Landspítalann í Reykjavík en börnin sluppu að því er virtist ómeidd, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Eftir að konan og börnin komust í öruggar hendur fóru þeir til heimila sinna í Reykjanesbæ en Najdan segir þá báða hafa grátið í bílnum. 

Hann segir það óþægilegt að hafa ekkert heyrt af börnunum tveimur frá því að sjúkraliðar sóttu þau og óskar þess að geta séð þau aftur til að vita að í lagi sé með þau.

„Vonandi er í lagi með alla,“ segir Najdan. „Það er í lagi með okkur, ég get jafnað mig en ég er alltaf að hugsa um litlu börnin. Tengdadóttir mín er ófrísk og kannski í kvöld eða næstu daga kemur litla afabarnið mitt. Og kannski er ég svo stressaður sérstaklega vegna þessa. Kannski get ég slakað á ef ég sé þau aftur.“

Samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi lækni á gjörgæslu nú í kvöld, er konan á batavegi. Hún verður sennilega útskrifuð af gjörgæslu í kvöld. Najdan á leið til Reykjavíkur eftir nokkra daga og segist ef til vill ætla að reyna að heimsækja hana á spítalann ef hún er þar enn.

Veist þú meira um málið? Sendu okkur skilaboð á ritstjorn@visir.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×