Fótbolti

Eitt skot og mark hjá Aroni og Altidore í Árósum

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Aron Jóhannsson þurfti aðeins eitt skot til að skora.
Aron Jóhannsson þurfti aðeins eitt skot til að skora. vísir/epa
Aron Jóhannsson skoraði annað mark Bandaríkjanna í 3-2 tapi fyrir Danmörku í vináttuleik í gærkvöldi sem fram fór á hans gamla heimavelli í Árósum.

Aron var að spila sinn fyrsta landsleik síðan hann kom inn á sem varamaður í fyrri hálfleik gegn Gana í fyrsta leik Bandaríkjanna á HM í fyrra.

Markið skoraði Aron á 66. mínútu og kom Bandaríkjunum í 2-1, en félagi hans í framlínunni, Jozy Altidore, kom Bandaríkjunum í 1-0 áður en Nicklas Bendtner jafnaði metin. Bendtner skoraði þrennu og innsiglaði sigur Dana.

Skotkort Bandaríkjanna í gær.mynd/mlssoccer.com
Aron og Altidore skutu báðir aðeins einu sinni að marki og skoruðu báðir. Hundrað prósent nýting hjá framherjunum. Aron spilaði 67 mínútur í leiknum en Altidore, sem er kominn aftur í MLS-deildina eftir skelfilega daga hjá Sunderland í ensku úrvalsdeildinni, spilaði allan leikinn.

Enginn annar framherji eða miðjumaður Bandaríkjanna sem tók þátt í leiknum kom skoti að marki. Varnarmaðurinn John Brooks skaut tvisvar að markinu en hitti það í hvorugt skiptið.

Sóknarleikur bandaríska liðsins hefur verið gagnrýndur undanfarin misseri en fjölmiðlar vestanhafs skrifuðu um það í gær að Altidore og Aron hafi náð vel saman.

Nicklas Bendtner skoraði þrjú mörk úr fjórum skotum sem voru einu fjögur skot Dana á markið. Nick Rimando stóð vaktina í marki Bandaríkjanna í fjarveru Tims Howards, markvarðar Everton, sem er í fríi frá landsliðinu.

Hér að neðan má sjá mörkin sem Altidore og Aron skoruðu í gær úr einu skotum Bandaríkjanna á mark Dana. Heildartölfræði leiksins má finna hér.

Altidore 0-1: Aron Jóhannsson 1-2:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×