Innlent

Enginn ákærður fyrir hnífstungu á Hverfisgötu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Enginn verður ákærður fyrir að stinga Sebastian Andrzej Golab í hjartað.
Enginn verður ákærður fyrir að stinga Sebastian Andrzej Golab í hjartað. Vísir/Þorgeir Ólafsson/Ernir
Ríkissaksóknari hefur fellt niður mál vegna hnífstunguárásar á Hverfisgötu þann 23. nóvember síðastliðinn. Þá var Sebastian Andrzej Golab stunginn í hjartað og sátu þrír menn upphaflega í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Tveir þeirra voru látnir lausir nokkrum vikum eftir árásina en einn mannanna sat í gæsluvarðhaldi þar til um miðjan febrúar. Skömmu síðar var honum tilkynnt um að málið hafi verið fellt niður.

Lögmaður mannsins, Guðmundur St. Ragnarsson, segir hann nú íhuga að leita réttar síns og sækja bætur frá íslenska ríkinu vegna gæsluvarðhaldsins, en maðurinn var í haldi í tæpa þrjá mánuði. Hann hefur ávallt neitað sök í málinu.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, segir að ekki hafi tekist að sýna fram á hver hafi veitt Sebastian stunguna. Því hafi embættið ákveðið að fella málið niður.

„Það voru þrír sem komu til greina en gögn málsins og vitnaframburðir voru þannig að ekki var hægt að sýna fram á sekt neins þeirra,“ segir Helgi Magnús.

Enginn verður því ákærður nema að eitthvað nýtt komi fram í málinu að sögn Helga.

Málið vakti mikla athygli þar sem það þykir kraftaverki líkast að Sebastian hafi lifað árásina af.

Snarræði skurðlæknisins Tómasar Guðbjartssonar hafði þar mikið að segja en hann hnoðaði hjarta Sebastians með berum höndum eftir að hann fór í hjartastopp. Tómas var svo undir lok ársins valinn maður ársins af lesendum Vísis.


Tengdar fréttir

Hnífurinn á Hverfisgötu ófundinn

Tveir menn hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald og einangrun til mánudagsins 15. desember grunaðir um að hafa stungið Sebastian Andrzej Golab á Hverfisgötu.

Þakklátur fyrir að hafa lifað af hnífstungu gegnum hjartað

Sebastian var stunginn í gegnum hjartað á Hverfisgötu fyrir rúmri viku. Með ótrúlegum hætti tókst að bjarga lífi hans og bati hans þykir undraverður. Hann lítur á björgunina sem annað tækifæri og ætlar að lifa lífinu með allt öðrum hætti hér eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×