Innlent

Geir á heimleið eftir 17 ár í fangelsi: Vill hjálpa öðrum sem leiðst hafa út á ranga braut

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Kristín og Sóley fóru, fyrir hönd fjölskyldunnar, í fangelsið til Geirs í mars í fyrra.
Kristín og Sóley fóru, fyrir hönd fjölskyldunnar, í fangelsið til Geirs í mars í fyrra. vísir/pjetur
Kristín S. Bjarnadóttir og fjölskylda hennar vinna nú að komu Geirs Gunnarssonar fanga til landsins. Geir hefur dvalist í Greensville-fangelsinu í Virginíufylki í Bandaríkjunum undanfarin 17 ár en losnar úr fangelsinu hinn 14. september næstkomandi.

Kristín og dóttir hennar, Sóley María Kristínardóttir, hittu Geir í fyrsta sinn fyrir rúmu ári síðan eftir áralöng bréfaskrif. Kristín segir vináttu Geirs og fjölskyldunnar einstaka og er tilhlökkunin því í hámarki. Undirbúningsvinna er nú í fullum gangi og ætla þær að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma honum aftur af stað í lífinu.

Geir bað Kristínu um að koma kortinu á framfæri við alla þá sem hefðu lagt honum lið á einn eða annan hátt. „Hann er þakklátur inn að hjartarótum fyrir allt sem fyrir hann er gert, enda eru honum í orðsins fyllstu merkingu allar bjargir bannaðar þarna í fangelsinu varðandi að undirbúa heimkomu sína,“ segir Kristín.
Sjá einnig: Hittast í fyrsta sinn eftir áralöng bréfaskrif

„Við erum að safna upp í búslóð, íbúð fyrir hann og erum að svipast um eftir vinnu. Hann óskaði eftir því að fá félagsráðgjöf og sálfræðiaðstoð þannig að við erum einnig búin að vera í samskiptum við félagsþjónustuna í Reykjavík,“ segir Kristín.

Hún segir Geir afar spenntan fyrir heimkomunni. Hann hyggist þó setjast að í Reykjavík en þær mægður búa á Akureyri. Þar þekki hann sig, en hann var síðast í Reykjavík árið 1995. Þær verði honum þó ávallt innan handar, enda löngu orðinn afar kær fjölskylduvinur.

Hátt í 200 manns boðið fram krafta sína

Þær stofnuðu hópinn Vinir Geirs á Facebook sem hugsaður er til samskipta fyrir vini hans og velunnara. Alls eru 140 manns í hópnum sem boðið hafa fram krafta sína. Þær stefna á að safna fyrir hann að minnsta kosti einni milljón króna. 

Kjartan Valur, átta ára, með kortið frá Geir. Kjartan Valur var tveggja mánaða þegar bréfaskrifin hófust.
„Hann vinnur fimm tíma á dag á lager í fangelsinu og er með 90 sent á klukkutímann, sem er rétt rúmlega hundrað kall. Þegar hann ætlar svo að láta þvo af sér fötin þá þarf hann að borga tíu dollara. Þannig að hann gerir ekkert annað en að viðhalda sjálfum sér og á ekkert umfram. Hann hefur enga möguleika á að mynda sér sjóð,“ segir Kristín.

Vill aðstoða aðra

Kristín segir Geir vilja í framtíðinni leggja sitt af mörkum í forvarnir. Hans saga sé dæmigerð fyrir ungling sem leiddist inn á ranga braut í lífinu. „Hann sér svo eftir á hvernig hann hefði kannski mátt koma í veg fyrir þetta allt saman. Hann ætlar þó fyrst að finna sér vinnu til að afla sér tekna.“

Sjá einnig: Eins og við hefðum alltaf þekkst

Þessi mynd var tekin rétt eftir ellefu klukkustunda heimsókn í fangelsið til Geirs. Öryggisgæslan þar er gríðarleg en vegabréfið var tekið af þeim þrisvar sinnum.
„Ég er hjúkrunarfræðingur og sá það þegar ég hitti hann að hann verður að fá læknisaðstoð. Hann er örugglega vannærður og er með meiðsli á öxl og er mjög verkjaður. Ég þarf að athuga hvernig ég á að snúa mér í þeim málum enda verður hann ekki tryggður fyrr en eftir hálft ár,“ segir hún.

Geir er bjartsýnn á framtíðina að sögn Kristínar. Hann ritaði þeim bréf á dögunum þar sem hann sagðist varla geta beðið eftir að fá loks að opna dyr sjálfur, fá að anda að sér fersku lofti og ætlar sér jafnvel að fara út að hlaupa á nóttunni, bara því hann geti það. Hún segir þó að fyrsta skrefið sé að koma honum undir læknishendur.

Góður maður

Geir var dæmdur í tuttugu ára fangelsi fyrir alvarlega líkamsárás gegn öðrum manni árið 1998. Dómur Geirs er sagður duttlungum háður, ríkið skaffaði honum verjanda sem reyndist honum ekki hliðhollur. Bréfaskrif Kristínar og fjölskyldu hófust árið 2007 eftir viðtal sem birtist við Geir í Kastljósi og hittust loks í mars á síðasta ári.

Geir Gunnarsson í Kastljósviðtalinu árið 2007.
„Hann er rosalega hlýr, gefandi og æðrulaus. Honum er mjög annt um sína nánustu og velferð þeirra og fylgist vel með þeim. Hann sendir hlý og gefandi bréf og getur ekki beðið eftir að fá að gera eitthvað samfélagslegt gagn,“ segir Kristín að lokum.

Þeir sem vilja leggja þeim lið er bent á eftirfarandi styrktarreikning:

Kennitala: 630307-0900

Reikningsnúmer: 0515-14-612840


Tengdar fréttir

Hittast í fyrsta sinn eftir áralöng bréfaskrif

"Við hugsuðum, hann er að brotna. Það verður einhver að hjálpa manninum. Við fengum heimilisfangið hans og fórum að skrifa honum. Við höfum verið pennavinir síðan, eða í sjö ár.“

Eins og við hefðum alltaf þekkst

Mæðgurnar Kristín S. Bjarnadóttir og Sóley María Hauksdóttir heimsóttu Geir Gunnarsson í fangelsi á dögunum

„Hann er breyttur maður“

Mæðgur frá Akureyri flugu í dag til Bandaríkjanna til að heimsækja íslenskan fanga sem setið hefur inni í Greensville-fangelsinu í Virginiu í sextán ár.

Geta ekki beðið eftir að fá Geir heim

"Það er ótrulegt hvernig svona góður maður getur þrifist á svona hræðilegum stað." Þetta segja íslenskar mægður sem heimsóttu fangann Geir Þórisson í Greensville-fangelsið í Virginíu í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×