Sport

Dóttir Muhammad Ali: Ég myndi vinna Rondu Rousey

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronda Rousey og Laila Ali.
Ronda Rousey og Laila Ali. Vísir/Getty
Ronda Rousey er algjörlega óstöðvandi í hringnum þessa dagana en það er þó ein heimsfræg bardagakona sem treystir sér að vinna hana. Það er reyndar einn hængur á.

Laila Ali er boxari eins og faðir sinn, Muhammad Ali, og hún vann alla 24 bardaga sína á ferlinum (frá 1999 til 2007) þar af 21 þeirra með rothöggi.

Ronda Rousey er stærsta bardagakona heims í dag enda virðist engin kona eiga möguleika í hana í UFC-keppni kvenna. Rousey hefur lýst því yfir að hún gæti unnið karla í sínum þyngdarflokki og hún er fyrir löngu orðin stórstjarna í bandarísku íþróttalífi.

Fréttamenn TMZ notuðu tækifærið og spurðu Laila Ali út í Rousey þegar þeir hittu hana á dögunum. Hvor myndi vinna?

„Þetta er spurning sem ég ætla ekki að svara því ég er ekki UFC-bardagakona og hún er ekki boxari," byrjaði Laila Ali en stóðst síðan ekki freistinguna.

„Engin kona í heimi getur unnið mig. Punktur," sagði Laila Ali. Ekki einu sinni Rousey?  „Auðvitað ekki. Hún er miklu minni en ég hvort sem er. Hún er eins og þriggja ára dóttir mín," sagði Laila Ali og það efast enginn að hún sé dóttir Muhammad Ali.

Vandamálið er hinsvegar að Laila Ali er búinn að setja boxhanskana upp á hillu og er ekkert að fara snúa aftur í hringinn. Það verður því ekkert af bardaga þeirra eins og hún talar sjálf um á twitter hér fyrir neðan. Þar má einnig sjá viðtalið hjá TMZ.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×