Innlent

Biðlistar eftir aðgerðum lengjast

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Biðlistar eftir aðgerðum á Landspítalanum hafa lengst um nærri helming á einu ári og halda áfram að lengjast. Fresta þurfti aðgerðum bæði í gær og í dag vegna álags á spítalanum. Dæmi eru um að sjúklingar þurfi að bíða í meira en eitt ár eftir því að komast í aðgerð.

Í byrjun febrúar í fyrra biðu 2.488 manns eftir því að komast í aðgerð á spítalanum. Nú ári síðar eru 3.611 manns að bíða eftir því að komast í aðgerð.

Biðlistar eftir aðgerðum hafa því lengst um 45% á einu ári. Margrét Guðjónsdóttir, staðgengill framkvæmdstjóra skurðlækningasviðs LSH, segir misjafnt eftir sérgreinum hversu langir biðlistarnir séu og hversu margir séu að bíða.

„Það eru flestir á bið eftir bæklunarskurðlækningum og almennum skurðlækningum og augnskurðlækningum“ segir Margrét.

Hún segir dæmi um að fólk hafi þurft að bíða lengur en í ár eftir að komast í aðgerð.

„Það fer allt eftir því hversu brýnar þær eru metnar. Fólk sem er að bíða eftir mjög brýnum aðgerðum og með lífsógnandi sjúkdóma það bíður yfirleitt ekki svo lengi það er skorið jafnóðum og nokkuð jafnt flæðið á því. Þeir sem eru að bíða eftir aðgerðum sem að tengjast kannski verkjum og óþægindum og einhverju slíku sem að ekki er metið mjög brýnt, en að sjálfsögðu aðgerð sem að þarf að gera, það getur tekið lengri tíma,“ segir Margrét.

Margrét bendir á að fresta hafi þurft um átta hundruð aðgerðum vegna verkfalls lækna. Þá hefur verið mikið álag á spítalanum undanfarnar vikur og þurft að fresta aðgerðum síðustu tvo daga. Biðlistarnir hafa því haldið áfram að lengjast.

„Sennilega hefur eitthvað hægt á greiningum líka í verkfallinu þannig að þessi mánuður núna sem er liðinn frá því verkfallið var þá hefur verið að bætast á biðlistana eins og við áttum von á“ segir Margrét Guðjónsdóttir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×