Innlent

Íslendingar þurfi að læra að ráðast á málefni frekar en manneskjuna sjálfa

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Íslendingar þurfa að vera jákvæðari. Þeir þurfa að læra að ráðast á málefni frekar en manneskjuna sjálfa og það gæti verið að það þurfi heila kynslóð til að breyta þankagangi þjóðarinnar. Þetta segir dr. Inga Dóra Sigfúsdóttir, kennari við Colombia háskólann í New York.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Inga ræddi hin ýmsu mál í þættinum Ísland í dag í gærkvöld. Til að mynda menntakerfið, fjölskylduna og muninn á Ameríku og Íslandi en Inga Dóra hefur ákveðnar skoðanir á hugarfari Íslendinga. „Við erum að leita held ég. Við misstum trúna og traustið á ýmsum stofnunum samfélagsins. Ég hef til dæmis ekki getað fylgst með íslenskum fjölmiðlum eftir hrun vegna þess að mér finnst umræðan svo gagnrýnin. Ég veit að það er fínt að vera gagnrýninn en hún verður að vera á málefnalegum forsendum og byggð á þekkingu. Finnst oft allt of neikvæður tónn,“ segir hún.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar er hugtakið sem hún biður fólk um að hafa hugfast. Ekki sé hægt að búa í þjóðfélagi þar sem í lagi telst að stimpla alla þá sem aðrar skoðanir hafa en maður sjálfur fífl og fávita.

Hljótum að finna okkur aftur

„Við erum búin að tapa okkur en við hljótum að finna okkur aftur. Við erum hrædd við þá sem eru með aðrar skoðanir og við eigum langt í land. Ég held að við séum að hræra dálítið í gildunum okkar og velta fyrir okkur hverju við eigum að halda og hvernig við eigum að halda áfram í samfélaginu.“

Inga Dóra hefur þó mikla trú á unga fólkinu og gerir ráð fyrir að allt muni þetta leiðréttast með þeirra kynslóð. „Ég held að þetta sé kynslóð sem komi til með að meta aðra hluti. Það sem hefur verið svona svolítið fléttað fyrir okkur að átta okkur á, er að krakkarnir, unglingarnir – við erum með þetta í rannsóknunum – við sjáum að þau eru jafnvel í betri stöðu en á uppgangstímanum. Þeim líður betur og þau verja meiri tíma með foreldrum sínum,“ segir hún og bætir við að krakkar þroskist hægar en áður.

„Sem ég held að sé eðlilegt. Ég held að þetta sé ákveðin þróun í því að ævin er að lengjast svo mikið. Hún er að lengjast þannig að ef við horfum á síðustu áratugi þá hefur orðið svo veruleg breyting, þannig að stór hluti þeirra krakka sem eru fæddir í kringum árið 2000 geta vænst þess að verða 100 ára.“

Viðtalið við Ingu Dóru má sjá í heild í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×