Innlent

„Þessi strákur er ótrúlega flottur“

Atli Ísleifsson skrifar
Ja­son Ýmir Jónasson, 13 ára strákur, var í dag verðlaunaður sem ungi upphringjandi ársins í tilefni af 1-1-2 deginum. „Þessi strákur var ótrúlega flottur. Hann fór þarna út að hjálpa eldri konu sem hafði dottið,“ segir Elva Björk Björnsdóttir, starfsmaður Neyðarlínunnar, í samtali við Ísland í dag fyrr í kvöld. Elva Björk segist vel muna eftir símtalinu frá Jasoni.

„Þetta var óveðursdaginn og ég var nú bara að vinna uppi á skrifstofu þegar ég hljóp niður til að grípa í símann. Það var mikið að gera. Hann var ótrúlega rólegur og yfirvegaður,“ segir Elva Björk.

16. desember síðastliðinn gekk mikið vonskuveður yfir suðvesturhorn landsins. Rok var og snjókoma og var fólk beðið um að vera ekki á ferðinni að óþörfu. Jason Ýmir kom þá eldri konu til bjargar þar sem hún hafði dottið og fótbrotnað, en Jason var þá staddur í Setbergsskóla.

Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, segir Jason Ými hafa farið út úr skólanum og sinnt konunni. „Hún reynist vera fótbrotin. Hann kemur henni í skjól og hringir svo í Neyðarlínuna. Hann er mjög skýr þegar hann segir hvert Neyðarlínan eigi að senda hjálp og hversu mikið liggi á því konunni sé að kólna. Ég held að hann hafi verið komið úr úlpu, eða hafi alla vega verið að skýla henni vel. Hann var svo með henni þangað til að sjúkrabíll kom á staðinn.“

Sindri Sindrason ræddi við foreldra Jasonar, starfsmenn Neyðarlínunnar og svo að sjálfsögðu Jason sjálfan um mikilvægi þess að kunna númerið 1-1-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×