Innlent

Tíminn að renna út varðandi samstarf við stjórnvöld

Heimir Már Pétursson skrifar
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að krafa Flóabandalagsins um 20 prósenta launahækkun í kjarasamningi til eins árs, rúmist ekki innan viðmiðana. Hann tekur undir með Flóabandalaginu um að samskipti stjórnvalda við aðila vinnumarkaðrins sé ekki gott og það liggi á að laga það samband.

Flóabandalagið svo kallaða, sem stendur saman af verkalýðsfélaginu Eflingu, Hlíf í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur, afhenti Samtökum atvinnulífsins kröfur sínar í gær. Þær gera ráð fyrir 35 þúsund króna lágmarkshækkun launa, afnámi tveggja lægstu launaflokkanna og eingreiðslu til að leiðrétta muninn á þeim hækkunum sem samið var um í síðustu kjarasamningum og þess sem önnur félög hafa samið frá því þeir voru gerðir í desember 2013.

Þorsteinn Víglundsson segir þessar kröfur ekki rúmast innan viðmiða um 3,5 prósenta launahækkun á ári til að tryggja stöðugleika.

„Nei, það gefur augaleið að það gera þær ekki. Þarna er verið að fara fram á 20 prósenta launahækkun yfir alla línuna í raun og veru. Það er að segja annars vegar ákveðnar krónutöluhækkanir á lægstu laun en síðan jafnframt lagfæringar í taxtakerfum sem myndu þýða að þetta er í raun prósentuhækkun upp á um 20 prósent,“ segir Þorsteinn.

Þetta sé langt umfram viðmið og myndi leiða til aukningar verðbólgu. Kröfur Flóabandalagsins séu á ársgrundvelli svipaðar og kröfur sem 16 önnur félög innan Starfsgreinasambandsins lögðu fram í síðustu viku.

Vandamálið sé að aðilar séu sammála um markmið samninga um að styrkja kaupmátt en ekki aðferðina. Leið tuga prósenta launahækkana í einu stökki hafi verið reynd margoft áður.

„Hún hefur alltaf skilað sömu niðurstöðu. Verðbólga hefur rokið af stað og kaupmáttaraukning þegar upp er staðið hefur orðið lítil sem engin og lakari en í stöðugleikasamningum eins og við gerðum á síðasta ári,“ segir Þorsteinn.

Verðbólga sé nú og lág og einstakt tækifæri til að byggja upp kaupmátt. Sigurður Bessason formaður Eflingar segir megin skýringuna á kröfu um skammtíma samning,  að Flóabandalagið treysti ekki stjórnvöldum sem gengið hafi á bak orða sinna. Þorsteinn tekur undir þetta.

„Ég held að það sé alveg ljóst að samskipti milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar þarf að laga;“ segir Þorsteinn.

Hann bindi vonir við að áhugi til þess sé fyrir hendi hjá stjórnvöldum.

„Það er alveg ljóst að við þurfum að hafa hraðar hendur núna á komandi vikum í að bæta þau samskipti og setjast yfir þau sameiginlegu verkefni sem við þurfum að horfa til,“ segir Þorsteinn.

Það séu margir þættir sem stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins geti horft sameiginlega til. Það þurfi að lagfæra þann mismun sem stjórnvöld höfðu forgöngu um að semja um við vissa hópa.

„Við þurfum að horfa til húsnæðiskerfisins hjá okkur. Húsnæðisbóta, aukins vægis leigumarkaðar og hvernig megi þá samræma vaxtabætur og húsaleigubætur og ýmsir tengdir þættir sem ættu þá að vera sameiginlegt viðfangsefni. Við treystum því að stjórnvöld verði þá tilbúin til að koma að því verkefni með okkur. En tíminn vinnur ekkert með okkur lengur. Við þurfum að einhenda okkur í þessi verkefni,“ segir Þorsteinn Víglundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×