Innlent

Opinn fundur með neyðarstjórninni hjá Sjálfsbjörg í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Sjálfsbjargar, verður fundarstjóri á fundinum og Stefán Eiríksson frummælandi.
Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Sjálfsbjargar, verður fundarstjóri á fundinum og Stefán Eiríksson frummælandi. Vísir
Opinn fundur verður haldinn með neyðarstjórn ferðaþjónustu fatlaðra í sal Reykjavíkurfélags Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, í Hátúni 12 klukkan 16 í dag. Frummælandi á fundinum verður Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og formaður neyðarstjórnarinnar, og fundarstjóri Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Sjálfsbjargar.

Bergur Þorri segir að tilgangur fundarins sé fyrst og fremst sá að veita notendum þjónustunnar beinan aðgang að neyðarstjórninni til að koma með ábendingar og fyrirspurnir.

„Það verður ekki öll neyðarstjórnin þar sem það komast ekki allir en þarna verði bæði fulltrúar frá sveitarfélögunum og Strætó,“ segir Bergur Þorri í samtali við Vísi.

Bergur segir að þjónustan hafi að ferðaþjónustan hafi að ákveðnu leyti batnað eftir að neyðarstjórnin var sett yfir hana. Þó séu enn að koma upp atvik eins og það í gær þar sem 11 ára gömul stúlka skilaði sér ekki heim með ferðaþjónustunni.

„En það eru bara allir á tánum og meðvitaðir um að það er ekki hægt að gera fleiri mistök í ferðaþjónustunni,“ segir Bergur.

Hann segir að nú sé tíminn sem menn höfðu til að koma með tillögur ríflega hálfnaður.

„Við hjá Sjálfsbjörg getum ekki verið annað en bjartsýn á að þetta muni breytast til batnaðar og að eftir tæpar tvær vikur verði komnar fram tillögur um hvernig breyta eigi þjónustunni. Við erum að minnsta kosti með beinan og góðan aðgang að neyðarstjórninni og erum kannski svolítið að vinna þessa vinnu sem hefði átt að vera búið áður en breytingarnar gengu í gegn.“

Bergur segir að allir séu velkomnir á fundinn á eftir.


Tengdar fréttir

Telja svör Strætó ekki fullnægjandi

Á fundi borgarráðs 15. janúar sl. báðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins um svör við átta spurningum sem varða ferðaþjónustu fatlaðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×