Innlent

Bæjarstjóri skoðaði ekki símtalaskrár sjálfur

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri segir ekki rétt að hann hafi skoðað símtalaskrár starfsmanna og kjörinna fulltrúa eins og segir í Fréttablaðinu og á Vísi í dag.

Í frétt á Vísi í dag segir í fyrirsögn að bæjarstjóri (Hafnarfjarðarbæjar) hafi játað að hafa skoðað símtalaskrár. Sambærilegur texti kemur fram í millifyrirsögn. Þetta er rangt. Sá texti sem vísað er til er úr emaili frá þeim starfsmanni bæjarins sem annaðist þessa skoðun og það var hann einn sem skoðað þessa skrá. Bæjarstjóri sá hana aldrei," segir í yfirlýsingu Haraldar.

Þess má geta að í umræddum fréttum var vísað til ræðu Haraldar á bæjarstjórnarfundi í gær. Af ræðunni varð ekki annað ráðið en að bæjarstjórinn hefði sjálfur skoðað lista yfir númer sem Vodafone sendi Hafnarfjarðarbæ. Vitnaði Haraldur í ræðunni í tölvupóst sem hann kvaðst hafa sent þá fyrr um daginn  hafa sent þremur bæjarfulltrúum sem kvartað hafa til Persónuverndar vegan skoðunar bæjarins á símtalaskrám.

„Fékk Vodafone uppgefið númerið sem um var að ræða. Í stað þess að svara umræddri beiðni sendi Vodafone lista yfir öll númer sem hringt hafði verið í. Í stað þess að senda til baka skoðaði undirritaður hvort viðkomandi númer væri á listanum. Svo var ekki. Undirritaður framkvæmdi þessa athugun og skoðaði upplýsingarnar en fékk tengiliðinn við símafyrirtækið til að kalla eftir upplýsingum ,“ las bæjarstjórinn meðal annars upp úr tölvupóstinum.

Haraldur á fundi bæjarstjórnar í gær.Vísir/GVA
Í ræðu Haraldar kom ekkert annað fram um þennan tölvupóst en að hann væri svar hans sjálfs við fyrirspurn bæjarfulltrúanna þriggja. Eftir að hann lauk máli sínu var annað mál til umræðu. Bæjarstjórinn kom hins vegar aftur í pontu. Sagðist hann þá vilja taka fram, til að fyrirbyggja misskilning, að hann væri ekki  sá sem kallaður er „undirritaður“ í tölvupóstinum. Sá væri annar starfsmaður bæjarins. Þetta fór fram hjá blaðamanni.

Þess má geta að eftir bæjarstjórnarfundinn í gær óskaði blaðamaður eftir því að fá afrit af tölvupóstinum sem bæjarstjórinn hafði þá nýlesið. Þeirri beiðni var hafnað og var í staðinn vísað á upptöku af fundinum. Eftir að ofangreind yfirlýsing Haraldar barst var aftur óskað eftir afriti af tölvupóstinum og hefur hann nú verið afhentur. Af honum má ráða að bæjarstjórinn var í raun að lesa upp úr bréfi undirmanns síns sem hann svo gerði að svari við fyrirspurn bæjarfulltrúanna.

Í myndbandinu að ofan má sjá þann hluta ræðu bæjarstjóra þar sem hann las úr tölvupósti sínum til bæjarfulltrúa. Að neðan má sjá fundinn í heild sinni. Rætt er um símtalamálið undir lok fundarins. Þar má meðal annars sjá og heyra þegar bæjarstjóri kemur í ræðustól að nýju og segist vilja fyrirbyggja þann misskilning að hann sé sá sem skoðaði símagögnin. Það hafi annar starfsmaður bæjarins gert.




Tengdar fréttir

Bæjarstjóri játar að hafa skoðað símtalaskrár

Bæjarfulltrúar minnihlutans í Hafnarfirði segja skýringar bæjaryfirvalda ekki duga til þess að þeir kalli aftur kvörtun til Persónuverndar vegna skoðunar á símanotkun þeirra. Engin svör bárust frá bænum við spurningum Fréttablaðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×