Innlent

Bæjarstjóri játar að hafa skoðað símtalaskrár

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Gunnar Axel Axelsson sagði símamálið grafalvarlegt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í gær.
Gunnar Axel Axelsson sagði símamálið grafalvarlegt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í gær. Fréttablaðið/GVA
„Ég á að njóta frelsis til að hafa samskipti við borgarana; bæjarbúa og starfsmenn og hverja sem ég vil án þess að þurfa að eiga það á hættu að framkvæmdastjóri bæjarins, fulltrúar meirihlutans eða aðrir séu að hnýsast í það,“ segir Gunnar Axel Axelsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar í Hafnarfirði.

Gunnar Axel er einn þriggja fulltrúa minnihlutans í bæjarstjórn Hafnarfjarðar sem í fyrradag sendu inn kvörtun til Persónuverndar vegna skoðunar bæjaryfirvalda á símanotkun þeirra.

Í yfirlýsingu bæjaryfirvalda í kjölfar fréttar Fréttarblaðsins í gær kemur fram að eftir að kvörtun barst hafi ætlunin verið að komast til botns í því hver hafi boðað tiltekinn starfsmann bæjarins á fund í ráðhúsinu. Kvörtunin hafi falið í sér ásakanir gagnvart ótilgreindum bæjarstarfsmönnum.

„Kom fram að starfsmaður undirstofnunar bæjarins hafi verið boðaður á fund en hringt hefði verið í hann úr síma skráðum á Hafnarfjarðarbæ. Nauðsynlegt var að kanna hvort og þá hver hefði hringt í starfsmanninn úr síma sem skráður væri á Hafnarfjarðarbæ en númerið hafði hann ekki tiltækt og ekki heldur nöfn þeirra sem sátu fundinn,“ segir í yfirlýsingunni.

Dularfullur fundur

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var sá sem kallaður var á þennan dularfulla fund starfsmaður hafnarstjórar bæjarins. Fundurinn fór fram 15. nóvember 2014.

Bæjaryfirvöld segja í yfirlýsingunn að því sé „alfarið hafnað að við þessa rannsókn hafi verið kannað við hverja kjörnir fulltrúar eða aðrir starfsmenn sveitarfélagsins töluðu í síma“. Þó er viðurkennt að bærinn hafi „kannað hvort og þá hver hafi hringt í númer starfsmannsins úr símkerfi Hafnarfjarðarbæjar“. Í kjölfarið hafi verið send beiðni til Vodafone og óskað upplýst hvort hringt hefði verið í þetta tiltekna númer á sex klukkustunda tímabili.

Fengu meiri upplýsingar en beðið var um

„Símafyrirtækið svaraði beiðninni með því að afhenda yfirlit yfir öll símanúmer sem hringt hafði verið í. Einn starfsmaður sveitarfélagsins annaðist rannsóknina og miðaði hún einungis að því að kanna hvort hringt hefði verið í þetta tiltekna símanúmer. Svo reyndist ekki vera og hefur öllum gögnum sem bárust frá símafyrirtækinu verið eytt.“

Gunnar Axel segir bæinn virðast hafa fengið sendar skrár um símtöl, meðal annars úr símum kjörinna fulltrúa. „Það hafa verið allir símar sem bærinn kemur að því að greiða að hluta eða að öllu leyti. Í tilviki kjörinna fulltrúa þá tekur Hafnarfjarðarbær þátt í símakostnaði.“

Bæjarfulltrúar eru með farsímanúmer í númeraröð samkvæmt kerfi sem tekið var upp hjá bænum á sínum tíma. Gunnar segir að þótt hann sé skráður notandi síns síma þá hafi komið á daginn að bærinn sé skráður „frumrétthafi“ og að um það virðist málið snúast.

Gunnar Axel segir það mjög áleitna spurningu hvort allir sem séu með síma sem að einhverju leyti sé greiddur af launagreiðanda eigi von á því að vinnuveitandinn geti hvenær sem er kynnt sér símtöl viðkomandi.

Sleginn bæjarfulltrúi vill ekki sæta eftirliti stjórnsýslunnar

„Það slær mig svakalega að það hafi ekki þurft meira til en að hafa samband við Vodafone til þess að fá þessar skrár sendar. Þetta varðar ekki bara hagsmuni og stöðu kjörinna fulltrúa heldur varðar þetta líka hagsmuni starfsmanna og þeirra rétt til persónuverndar.“

Þá segir Gunnar Axel að sem kjörinn fulltrúi hafi hann ákveðnar skyldur, ein sé sú að hafa eftirlit með stjórnsýslunni. „Það eftirlit gengur hins vegar ekki í báðar áttir. Ég á ekki að þurfa að sæta eftirliti af hálfu stjórnsýslunnar. Ef það hefði komið í ljós að ég hefði verið í samskiptum við þennan einstakling hvað ætlaði þá bæjarstjórinn að gera við þær upplýsingar?“

Fyrir þremur dögum kölluðu fulltrúar minnihlutans eftir upplýsingum um það hver framkvæmdi rannsóknina og hvernig og á grundvelli hvaða heimilda. Gunnar Axel segir yfirlýsinguna í gær aðeins svara þessum spurningum að ákveðnu marki.

Yfirlýsing staðfestir efni kæru

„Ég held að það hljóti að verða að skoða hvaða heimildir Hafnarfjarðarbær hefur til þess að kalla eftir slíkum upplýsingum og nýta þær. Ég hef miklar efasemdir um að þær heimildir eigi sér stoð í lögum,“ segir Gunnar sem kveður yfirlýsinguna „að sjálfsögðu ekki“ tilefni til að draga kvörtunina til Persónuverndar til baka.

„Hún staðfestir það sem kemur fram í kvörtun okkar til Persónuverndar; að þessi rannsókn hafi farið fram og að hún hafi náð til okkar símtækja – síma í minni eigu. Þetta er númerið mitt og síminn sem ég tala við konu mína úr.“

Bæjarstjórinn svarar ekki spurningum

Fréttablaðið sendi í gær bæjarstjóranum og oddvitum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar spurningar um málið.

Í svari segir að bæjarstjórinn hafi svarað fyrirspurnum bæjarfulltrúa vegna málsins. „Samkvæmt því sem fram hefur komið er málið í ferli hjá Persónuvernd og á meðan verður spurningum ekki svarað að svo stöddu.“

Í yfirlýsingu bæjaryfirvalda er tekið fram að við rannsókn á gögnum hafi verið gætt að reglum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Vodafone fékk í gær spurningar í 12 liðum en bar við trúnaði við viðskiptavini. Aðeins var svarað því hvort allir sem eru með símanúmer frá Vodafone og vinnuveitandi greiðir að einhverju leyti geti átt von á því að vinnuveitandi fái upplýsingar um símnotkunina frá Vodafone:

„Áskrifendur eiga rétt á að fá reikninga fyrir fjarskiptanotkun sína sundurliðaða á grundvelli ákvæða í fjarskiptalögum og reglna sem eru settar á grundvelli þeirra. Í þeim tilvikum sem fyrirtækið er áskrifandi en starfsmaðurinn notandi er svar við spurningu þinni já.“

Hér neðar má lesa fyrrnefndar spurningar Fréttablaðsins til Vodafone.

Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri á fundi bæjarstjórmar í gær.Fréttablaðið/GVA
Bæjarstjórinn fékk of miklar upplýsingar og skoðaði þær samt

Fram kemur í tölvupósti sem Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri sendi þremur bæjarfulltrúum í gær og las upp á bæjarstjórnarfundi í gær að í tvígang hafi verið reynt að finna út hver rætt hefði við tiltekinn bæjarstarfsmann í síma. Í seinna skiptið þann 12. janúar síðastliðinn. Þá hafi Vodafone verið beðið að skoða hvort hringt hefði verið í ákveðið númer milli klukkan 10 og 16 þann 14. nóvember 2014 úr einhverjum síma sem Hafnarfjarðarbær greiddi fyrir.

„Fékk Vodafone uppgefið númerið sem um var að ræða. Í stað þess að svara umræddri beiðni sendi Vodafone lista yfir öll númer sem hringt hafði verið í. Í stað þess að senda til baka skoðaði undirritaður hvort viðkomandi númer væri á listanum. Svo var ekki.

Undirritaður framkvæmdi þessa athugun og skoðaði upplýsingarnar en fékk tengiliðinn við símafyrirtækið til að kalla eftir upplýsingum. Þá kom starfsmaður í tölvudeild að því að kalla fram upplýsingar úr símkerfi. Þetta var gert til að reyna að finna út hvort tiltekinn fundur hefði verið boðaður úr síma á vegum bæjarins. Samkvæmt lýsingu átti það að hafa gerst og verið var að leita að staðfestingu,“ las bæjarstjórinn úr tölvupóstinum og bætti svo við:

„Og við höfum litið svo á að þetta væri öryggismál innan ráðhússins, meðal annars hjá okkur og þess vegna var farið í þessa skoðun.“

Spurningar Fréttablaðsins til Vodafone í gær:

1 Til hversu margra símanúmera náði yfirlitið sem sent var bænum?

2 Var um að ræða bæði fastlínunúmer og farsímanúmer?

3 Hver er skráður notandi umræddra símanúmera?

4 Eru einhverjir einstaklingar skráðir [notendur] umræddra símanúmera?

5 Leitaði Vodafone heimildar notenda umræddra símanúmera til að senda bænum yfirlit um símtöl tengdum númerunum?

6 Hvaða heimild hefur Vofafone til að láta slík gögn af hendi án samþykkis þeirra sem nota símana?

7 Hver hjá Hafnarfjarðarbæ óskaði eftir umræddum símgögnum?

8 Hver fékk gögnin send?

9 Hvernig var öryggi gagnanna sem send voru tryggt?

10 Hvers vegna sendi Vodafone Hafnarfjarðarbæ „yfirlit yfir öll símanúmer sem hringt hafði verið í“ en ekki aðeins „upplýsingar um hvort hringt hefði verið í þetta tiltekna númer á sex klukkustunda tímabili“ eins og segir í meðfylgjandi yfirlýsingu að óskað hafi verið eftir?

11 Hver greiðir af þeim númerum sem upplýsingarnar náðu til?

12 Geta allir einstaklingar sem eru með símanúmer frá Vodafone og vinnuveitandi greiðir að hluta eða öllu leyti átt von á því að vinnuveitandinn fái upplýsingar um símnotkunina kalli hann eftir því frá Vodafone?

Auk þess sem fram kemur hér að framan segir í svari Vodafone:

Lögum samkvæmt geymir Vodafone gögn í sex mánuði skv. fyrirmælum í 42. gr. fjarskiptalaga. Félagið vinnur eftir skýrum verklagsreglum við meðhöndlum beiðna um vinnslu á fjarskiptagögnum, með hliðsjón af lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í reglugerð 526/2011, um reikningagerð fyrir fjarskiptaþjónustu, kemur fram að áskrifendur að fjarskiptaþjónustu eigi rétt á að fá reikninga fyrir fjarskiptaþjónustu ítarlega sundurliðaða. Í því felst að þeir geta fengið nákvæmari upplýsingar en þær sem birtast á almennum reikningum um fjarskiptaþjónustu þeirra. Kröfur um sundurliðun samkvæmt ákvæði þessu má uppfylla með rafrænum hætti og hafa viðskiptavinir Vodafone aðgang að umræddum upplýsingum á „Mínum síðum“.

Verklagsreglur Vodafone á þessu sviði eru skýrar, í samræmi við og þeim framfylgt í einu og öllu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×