Viðskipti innlent

Rannveig Rist og félagar fyrir dóm í júní

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rannveig Rist við fyrirtöku í málinu í október sl.
Rannveig Rist við fyrirtöku í málinu í október sl. Vísir/Ernir
Aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara gegn fyrrum stjórnarmönnum og fyrrum forstjóra SPRON fer fram 1.-3. júní næstkomandi. Þetta var tilkynnt við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær auk þess sem dómarinn í málinu, Pétur Guðgeirsson, tilkynnti að meðdómendur hans yrðu Skúli Magnússon, héraðsdómari, og Arnar Már Jóhannesson, löggiltur endurskoðandi.

Fjórir fyrrum stjórnarmenn SPRON eru ákærðir í málinu, þau Rannveig Rist, Jóhann Ásgeir Baldurs, Margrét Guðmundsdóttir og Ari Bergmann Einarsson. Þá er fyrrverandi forstjóri SPRON, Guðmundur Örn Hauksson, einnig ákærður.

Sjá einnig: Rannveig Rist lýsti yfir sakleysi.

Þeim er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefn fé hans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga. Í ákærunni segir að brot þeirra sé stórfellt en málið snýr að tveggja milljarða lánveitingu sparisjóðsins til Exista skömmu fyrir hrun, eða 30. september 2008. Brot þeirra er jafnframt sagt óvenjulegt í ákærunni að því leiti að lánið var það eina sem samþykkt var á árunum 2007-2008.

Fimmmenningarnir hafa allir neitað sök í málinu og við fyrirtöku málsins lögðu verjendur þeirra fram gögn sem sneru að stöðu Exista á þeim tíma sem brotin áttu sér stað. Sögðu þeir að gögnin sýndu að engin hætta hafi verið á gjaldþroti Exista þá en haustið 2010 fór félagið í gegnum nauðasamninga og kröfuhafar fengu full yfirráð yfir því.


Tengdar fréttir

Rannveig áfram í forstjórastólnum

Rannveig Rist, sem hefur verið ákærð af sérstökum saksóknara fyrir umboðssvik, verður áfram forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi.

Lánið til Existu án nokkurra trygginga

Lán sem SPRON veitti Existu 30. september 2008 að upphæð tveir milljarðar króna var eina lánið sem samþykkt var af stjórn SPRON á árunum 2007 og 2008. Þetta kemur fram í ákæru Sérstaks saksóknara gegn sparisjóðsstjóranum og fjórum stjórnarmönnum.

Rannveig nýtur fulls trausts stjórnar HB Granda

Vegna framkominnar ákæru á hendur Rannveigu Rist telur stjórn HB Granda hf. ekki ástæðu til að gera athugasemdir við áframhaldandi stjórnarstörf hennar fyrir félagið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×