Viðskipti innlent

Lánið til Existu án nokkurra trygginga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðmundur Hauksson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, er einn hinna ákærðu.
Guðmundur Hauksson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, er einn hinna ákærðu. fréttablaðið/Arnþór
 Lán sem SPRON veitti Existu 30. september 2008 að upphæð tveir milljarðar króna var eina lánið sem samþykkt var af stjórn SPRON á árunum 2007 og 2008. Þetta kemur fram í ákæru Sérstaks saksóknara gegn sparisjóðsstjóranum og fjórum stjórnarmönnum.

Ákæran var birt opinberlega í gær, samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Í henni segir að það hafi verið mjög óvenjulegt að stjórn sparisjóðsins tæki ákvörðun um slíkt lán, enda lánið afar hátt miðað við fjárhag sparisjóðsins.

„Full ástæða var fyrir meðlimi stjórnarinnar að fara varlega við ákvörðun sína og fara eftir öllum reglum vegna slíkra lánveitinga, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem upp var komin á fjármálamörkuðum 30. september 2008. Því fór hins vegar fjarri að ákærðu færu eftir þeim varúðarreglum sem þeim bar skylda til í störfum sínum,“ segir í ákærunni.

Þvert á móti hafi lánið verið veitt án nokkurra trygginga. Þá hafi ekki farið fram mat á stöðu Existu og greiðslugetu, þrátt fyrir að ákærðu hafi hlotið að vera ljóst að eignir þess hefðu fallið mikið í verði á mörkuðum auk þess sem gengi hlutabréfa í Existu hafi fallið mjög á mörkuðum.

Ákærðu eru Guðmundur Hauksson, Margrét Guðmundsdóttir, Rannveig Rist, Ari Bergmann Einarsson og Jóhann Ásgeir Baldurs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×