Innlent

Bílamál Sigmundar óljós: Velja á milli sex tilboða

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sigmundur Davíð mun fá nýjan bíl til umráða.
Sigmundur Davíð mun fá nýjan bíl til umráða. visir/valli
Stjórnarráðið hefur haft til skoðunar þann möguleika að festa kaup á bifreið fyrir forsætisráðuneytið, sem leysa myndi af hólmi 11 ára gamla bifreið sem forsætisráðherra hefur nú til afnota.

Á grundvelli rammasamnings fór fram örútboð á vegum Ríkiskaupa, þar sem sex bílaumboðum bauðst að taka þátt. Ekki hefur verið tekin afstaða til innsendra tilboða og því hefur engu tilboði verið tekið.

Viðskiptablaðið greindi frá því í morgun að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, myndi fá BMW 7 til umráða en í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að það sé alfarið rangt. Fréttin hefur nú verið tekin úr birtingu.

Skjáskot.
„Núverandi bifreið ráðuneytisins er af gerðinni BMW af árgerð 2004. Bifreiðin hefur verið á verkstæði undanfarnar vikur þar sem hún bíður viðgerðar vegna bilunar í sjálfskiptingu. Bifreiðin er ekin um 300 þúsund kílómetra, hún er óökufær sem stendur og krefst verulegs viðhalds- og rekstrarkostnaðar. Athugun ráðuneytisins á kaupum á nýrri bifreið hefur tekið mið af því, en rétt er að ítreka að ekki hefur verið tekin ákvörðun í málinu,“ segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Samkvæmt viðmiðum Stjórnarráðsins þurfa bifreiðar ráðuneytanna að uppfylla tilteknar öryggis- og gæðakröfur og eru tilboð m.a. metin út frá þeim. Upplýst verður um niðurstöðuna þegar hún liggur fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×