Innlent

Myndavélar Alfonsar fundnar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ljósmyndabúnaður Alfonsar Finnssonar, ljósmyndara og fréttaritara Skessuhorns, er fundinn. Um var að ræða nær öll hans tæki og tól ásamt hörðum diskum með öllum ljósmyndum sem Alfons hafði tekið á ferli sínum sem spannar nú um þrjátíu ár.

Vísir greindi frá því í gær að brotist hefði verið inn á heimili Alfonsar í Ólafsvík síðdegis á laugardag en sjálfur var hann þá á sjúkrahúsi í Reykjavík. Kona hans og sonur voru úti að horfa á þrettándabrennuna.

Myndavélar Alfonsar.vísir/alfons
Skessuhorn greinir frá því að mikil leit hafi hafist að búnaðinum strax í gærmorgun. Grunaður maður hafi verið handtekinn í Ólafsvík og í framhaldinu færður til yfirheyrslu. Í gærkvöld hafi hann loks játað og vísað lögreglu á þýfið þar sem það var falið í Snæfellsbæ. 

Alfons er afar þakklátur, enda hefði tjónið orðið honum óbætanlegt. „Ég hef orðið var við mikinn stuðning almennings í þessu máli. Fjölmargir hafa hringt í mig. Fréttum um þjófnaðinn með myndum af vélunum var dreift af fjölda manns á Facebook. Ég vil koma á framfæri innilegum þökkum til allra sem lögðu hér hönd á plóg. Þessi stuðningur og hjálp var ómetanleg," segir Alfons í samtali við Skessuhorn.


Tengdar fréttir

Þrjátíu ár af vinnu á bak og burt

Brotist var inn á heimili Alfonsar Finnssonar ljósmyndara á laugardag. Tösku með myndavélum og fartölvu var rænt og telur hann kostnaðinn vera um tvær milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×