Innlent

Vill að fólki verði leyft að komast nær eldgosinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Oddviti Skútustaðahrepps hvetur til þess að almenningi verði leyft að komast nær gosstöðvunum í Holuhrauni með því að fara leið um Ódáðahraun. Sú leið sé utan flóðahættu og hana megi skjótast á vélsleðum á tveimur klukkustundum úr Mývatnssveit.

Eldgosið í Holuhrauni er sérstakt að því leyti að almenningi hefur allan tímann verið bannað að nálgast gosstöðvarnar, aðeins vísinda- og fjölmiðlamönnum hefur verið leyft að fara á svæðið. Eldgos er auðvitað hættulegt en um leið heillandi fyrirbæri sem marga langar að sjá og vísindamennirnir sem fóru að eldstöðinni um þarsíðustu helgi athöfnuðu sig við hraunjaðarinn án gasgríma og virtust ekki upplifa sig í bráðri hættu.

Oddviti Skútustaðahrepps, Yngvi Ragnar Kristjánsson, sem jafnframt er hótelhaldari í Mývatnsveit, hvetur nú til þess að skoðað verði hvort slaka megi á banninu en tekur jafnframt fram að hann vilji að öryggi verði sett umfram allt annað.

Víðtækt ferðabann hefur verið í gildi á stórum hluta hálendis Íslands frá því um miðjan ágústmánuð.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Raunar má telja bannsvæði almannavarna eitt víðtækasta ferðabann sem sett hefur verið á hérlendis en stór hluti hálendisins hefur verið bannsvæði undanfarna fimm mánuði. Aðeins ein leið, frá Möðrudal, hefur verið opin inn á svæðið fyrir vísinda- og fjölmiðlamenn, auk lögreglu.

Oddviti Mývetninga vill að skoðað verði hvort opna megi leið fyrir almenning, vestan Öskju, frá Mývatni og að útsýnisstað sunnan við svokallan Kattbeking, sem er tíu kílómetra frá gígnum. Hann fór í haust þessa leið í fylgd lögreglu og björgunarsveitar en hún liggur um Ódáðahraun og Dyngjufjalladal.

Leiðin sem oddvitinn vill opna liggur frá Mývatni að útsýnisstað sunnan við Kattbeking, 10 km frá eldsstöðinni.Grafík/Hjalti Þór Þórsson.
Yngvi Ragnar segist finna fyrir gríðarlegum áhuga hjá fólki að komast á svæðið á vélsleðum og breyttum jeppum og í greinargerð um málið birtir hann myndir af útsýnisstöðum sem eru utan hættusvæðis vegna hugsanlegs hamfaraflóðs. Hann vill að skoðað verði hvort þessa leið megi opna, bæði sem viðbótar flóttaleið en einnig til takmarkaðra nota fyrir ferðaþjónustu fyrst um sinn, en hvetur jafnframt til að hún verði lagfærð og gerð greiðfærari vegna framtíðarumferðar inn á svæðið.

Leiðin liggur vestan Sellandafjalls, um Ódáðahraun og Dyngjufjalladal. Oddvitinn hvetur til þess að hún verði lagfærð vegna framtíðarumferðar inn á svæðið.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×