Enski boltinn

Víctor Valdés búinn að semja við Man. Utd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Víctor Valdés rífur í spaðann á Louis van Gaal eftir undirskriftina í kvöld.
Víctor Valdés rífur í spaðann á Louis van Gaal eftir undirskriftina í kvöld. vísir/getty
Spænski markvörðurinn Víctor Valdés, fyrrverandi leikmaður Barcelona, er búinn að semja við Manchester United, en hann gerir 18 mánaða samning við enska félagið með möguleika á að framlengja um eitt ár.

Frá þessu greinir heimasíða Manchester United, en Valdés, sem er 32 ára gamall, hefur æft með United að undanförnu. Hann spilaði allan sinn feril með Barcelona og vann þar sex Spánarmeistaratitla, tvo Konungsbikara og Meistaradeildina í þrígang.

Valdés hefur verið án liðs síðan hann yfirgaf Barcelona eftir síðustu leiktíð, en hann sleit krossband í leik gegn Celta í lok mars á síðasta ári.

„Ég er mjög ánægður að vera búinn að semja við Manchester United. Ég er virkilega þakklátur knattspyrnustjóranum,“ segir Valdés í viðtali við MUTV.

„Mér leið eins og mér væri að dreyma þegar ég mætti fyrst á æfingasvæðið og sá Manchester United skrifað stórum rauðum stöfum.“

Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, staðfesti eftir undirskriftina að Valdés verður annar markvörður liðsins sem þýðir að Daninn Anders Lindegaard færist aftar í goggunarröðina.

Hér má sjá viðtal við Valdés á heimasíðu Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×