Skoðun

Framtíðarsýn

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir skrifar
Eftir harðan og kaldan vetur hefur vorið látið á sér kræla með köldum en björtum sólardögum sem gefa okkur von um hlýtt og gott sumar. Hlýjan og vonin virðist þó víðs fjarri á meðal fólksins sem býr hér á landi, heldur er farið að bera á vonleysi og kulda í samskiptum almennings og stjórnvalda. Kannski hefur þetta alltaf verið svona, ég veit það ekki. En ég hef sjaldan upplifað samlanda mína jafn vonsvikna; hvaða stétt eða stöðu sem þeir tilheyra. Það er erfitt að vera vonsvikinn, því það þýðir að þá hefur viðkomandi verið svikinn um von.

Ég hef velt því mikið fyrir mér hvernig í veröldinni við eigum að geta breytt þessu og snúið frá hugmyndafræði sem byggir á hagsmunagæslu, að safna sér sem mestum auði og að valta yfir fólk til að komast þangað sem hver ætlar sér – sama hvað það kostar. Og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að það er sameiginleg framtíðarsýn sem við þörfnumst. Og já, ég veit að það er sannarlega hægara um að tala en í að komast. En við – og þá alls ekki síst leiðtogar þessa lands – megum ekki haga okkur eins og við séum ein í heiminum. Að annað fólk komi okkur ekki við eða sé hreinlega fyrir okkar eigin markmiðum. Því við búum í samfélagi sem er samansett af fólki með alls konar viðhorf, drauma og aðstæður; fólki sem er jafnmikilvægt og ég og þú. Samfélagið okkar mun ekki ná árangri og þegnar þess munu ekki upplifa von fyrr en við setjum niður fyrir okkur hver markmið okkar sem samfélag eru. Rétt eins og leiðtogi fyrirtækis sem missir aldrei sjónar á markmiðum rekstrarins nær árangri – hvort sem markmiðið er að auka hagnað, framleiðni eða styrkja ímynd fyrirtækisins.

Ég vil búa í samfélagi sem hefur skýra framtíðarsýn – skýr markmið:

  • Menntun er fyrir alla.
  • Öflug heilbrigðisþjónusta er fyrir alla á öllum stigum.
  • Velferð allra samfélagsþegna er jafnmikilvæg.
Kæru ráðamenn og samlandar! Við getum svo miklu, miklu betur. Ýtum hagsmunagæslu til hliðar og rýnum í þarfir samfélagsins okkar á heildrænan hátt. Hér er nóg af öllu og við munum forgangsraða rétt ef við fylgjum réttlátri framtíðarsýn sem gefur fólki von um að hér sé rými fyrir okkur öll – sama hverjar þarfir okkar eru.



Síðast en ekki síst þurfum við að eyða fé í að byggja upp fólk en ekki dauða hluti.




Skoðun

Sjá meira


×