Innlent

„Við verðum auðvitað að girða okkur í brók“

Gunnar Atli Gunnarsson. skrifar
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir drátt á meðferð mála hjá embætti ríkissaksóknara vera óþolandi ástand. Nú þurfi þingmenn að girða sig í brók og gera betur.

Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að Hæstiréttur hefur ítrekað gert athugasemdir við tafir á meðferð mála hjá embætti ríkissaksóknara. Hæstiréttur hefur í 13 dómum á síðastliðnu ári gert slíkar athugasemdir og í sjö dómum hefur refsing verið milduð. Ríkissaksóknari sagði núverandi ástand algjörlega óþolandi og að embættið löngu væri löngu sprungið vegna fjölgunar mála.

Sjá einnig: Ríkissaksóknari segir málshraða rannsókna algjörlega óþolandi

Brynjar Níelsson, hæstaréttarlögmaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir ástandið óþolandi. „En þetta hefur varað lengi og er ekki alveg nýtt. Í staðinn fyrir að vera að benda á einhverja sökudólga eða neitt slíkt, þá held ég að það þurfi að fara yfir þetta kerfi allt saman í heild sinni og tryggja það að málsmeðferð sé eðlileg fyrir alla,“ sagði Brynjar í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Hann sagði fjármagn vanta í dómskerfið en sagði skipulagið og uppbyggingin á kerfinu einnig geta átt þátt í þessu. „En örugglega fjármagn vantar og þetta hafa ekki verið fjárfrekir málaflokkar, ákæruvald og dómstólar.“

Brynjar segir nauðsynlegt að reikna út það fjármagn sem embætti ríkissaksóknara þarf til að koma þessum málum í viðunandi horf. „Það er gert auðvitað ráð fyrir þessu í lögum og mannréttindasáttmálum að þetta gangi fyrir sig með eðlilegum hætti. Þannig að við verðum auðvitað að girða okkur í brók og reyna að gera eitthvað betur úr þessu en nú er,“ sagði Brynjar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×