Innlent

Forsetinn skemmtir sér meðal hinna ofurríku í brúðkaupi á Indlandi

Jakob Bjarnar skrifar
Ólíklegt er annað en forsetinn hafi stigið dans við indverska vini sína undir dúndrandi tónum frá J-Lo.
Ólíklegt er annað en forsetinn hafi stigið dans við indverska vini sína undir dúndrandi tónum frá J-Lo.
Samkvæmt breska fjölmiðilinum Daily Mail var Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á gestalista þegar haldið var brúðkaup í síðustu viku að hætti hindúa. Brúðkaupið er sagt hafa kostað 15 milljónir punda en milljarðamæringurinn Sanjay Hinduja giftist Anu Mahtani í glæsihóteli í indversku borginni Udaipur, Jagmandir Island Pallace. Hinduja er annars búsettur í London en fjölskylda hans telst ein sú auðugasta á Bretlandseyjum og þó víðar væri leitað.

Daily Mail, sem segir ítarlega frá brúkaupinu mikla, greinir frá því að margt hafi verið tiginna gesta og ríkra svo sem milljarðamæringurinn Vedanta Chief Anil Aggarwal auk þess sem á gestalista er sjálfur forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson.

Vísi hefur ekki aðrar heimildir fyrir ferðum forsetans en Daily Mail en í vikunni átti forsetinn fund með fulltrúum nýrrar ríkisstjórnar á Indlandi, Suresh Prabhu ráðherra, dr. Vinay Sahasrabuddhe, varaforseta BJP flokksins og stjórnanda rannsóknarmiðstöðvarinnar Public Policy Center og embættismönnum þeirra. Frá þessu er sagt á forseti.is. Vel þekktur er Indlandsáhugi Ólafs Ragnars Grímssonar og á hann ýmsa háttsetta vini á Indlandi.

Þegar gestir komu til Udaipur voru þeir ferjaðir í höllina á háklassa BMW-bifreiðum sem sérstaklega var flogið til staðarins frá Mumbai. Ýmislegt var gert sér til skemmtunar og meðal annarra tróð söngkonan J-Lo og Nicole Scherzinger. Þá kemur fram að 208 einkaþotur hafi komið með gesti til brúðkaupsins en alls voru gestir 16 þúsund. Brúðkaupið stóð í þrjá daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×