Innlent

Félagasamtök vinni heimavinnuna sína

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar segir að fyrirtæki, flokkar og félagasamtök geti enn dreift boðskap sínum ef farið er eftir reglum.
Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar segir að fyrirtæki, flokkar og félagasamtök geti enn dreift boðskap sínum ef farið er eftir reglum. VÍSIR/VALLI
„Það er að fjölga mikið þessum kærum, alveg verulega,“ segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.

Þann 25. júní síðastliðinn úrskurðaði Póst- og Fjarskiptastofnun um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði brotið fjarskiptalög með sms-sendingum og símtali til félagsmanns í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, á kjördag 2014. Félagsmaðurinn taldi sig ekki hafa veitt samþykki sitt fyrir að taka á móti sendingum af þessu tagi.

„Við birtum þarna fjórar eða fimm ákvarðanir í einu,“ segir Hrafnkell.

Hrafnkell V. Gíslason
„Ég held að þetta sé tákn um það að þetta sé að aukast. Almenningur er að verða meðvitaðri um rétt sinn gagnvart friðhelgi einkalífsins annars vegar og hins vegar er núna heilmikið um það að fyrirtæki og félagasamtök séu að nota þessar rafrænu leiðir til að hafa samband við þá sem þeir vilja ná athygli frá og þetta mætist svolítið í þessari aukningu.“

Hrafnkell segir að með þessum úrskurðum sé ekki verið að banna það að fyrirtæki eða félagasamtök komi boðskap sínum á framfæri.

„Og eins og til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn, ef hann myndi vinna ákveðna heimavinnu varðandi félagaskrána, þá getur hann notað þessar leiðir en þá verður það að vera þannig að það sé upplýst samþykki. Það er ekki verið að banna leiðina, það er verið að hnykkja á því hvaða verklag menn hafa í þessu.“

Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir að úrskurður af þessum toga setji frjálsum félagasamtökum í landinu nokkrar skorður.

„Það er ekki ólíklegt að við kærum. Við teljum að [ákvörðunin] muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir öll frjáls félagasamtök í landinu,“ segir Þórður. 

„Þetta snýst náttúrulega engan veginn um Sjálfstæðisflokkinn, þetta snýst um hvernig flokkar og öll frjáls félagasamtök í landinu hafa nálgast félagsmenn sína. Það allt saman er undir. Það er mjög ólíklegt að við munum láta það liggja í lausu lofti þannig að það er auðvitað langlíklegast að við munum kæra þennan úrskurð,“ segir hann. 

„Það er talsvert ólíku saman að jafna, samskiptum frjálsra félagasamtaka við félagsmenn sína og það hvernig menn fara í blindar hringingar eftir símaskrá.“ 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×