Innlent

Grunaður um að svindla á flugfélagi með stolnum greiðslukortum

Bjarki Ármannsson skrifar
Maðurinn var handtekinn við komu sína til landsins.
Maðurinn var handtekinn við komu sína til landsins. Vísir/Stefán
Hæstiréttur hefur gert erlendum karlmanni sem grunaður er um að hafa framið fjölda auðgunarbrota að sæta gæsluvarðhaldi til 8. október næstkomandi. Maðurinn kom hingað til lands í síðasta mánuði frá Frankfurt í Þýskalandi og var handtekinn við komu til landsins.

Samkvæmt því sem kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, sem Hæstiréttur staðfesti í dag, er maðurinn annars vegar grunaður um að hafa tekið við og notað flugmiða hjá ákveðnu flugfélagi sem greiddir voru með stolnum greiðslukortaupplýsingum.

Hins vegar er hann grunaður um að hafa svikið út varning um borð í flugvélum sama félags. Við komuna til Íslands var maðurinn með varning sem hann hafði verslað um borð í flugvélinni, alls fyrir rúmlega 200 þúsund krónur.

Fram kemur í úrskurðinum að maðurinn hafi verið nokkuð missaga í framburði sínum hjá lögreglu. Hann eigi engin tengsl við Ísland og því sé full ástæða til að ætla að hann muni reyna að koma sér úr landi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×