Innlent

Messuvínið er enginn Brazzi

Jakob Bjarnar skrifar
Ekki er það svo að fermingarbörn og fjölskyldur þeirra súpi á Brazza þegar þau meðtaka blóð Krists við altarisgöngu.
Ekki er það svo að fermingarbörn og fjölskyldur þeirra súpi á Brazza þegar þau meðtaka blóð Krists við altarisgöngu.
Nú stendur yfir fermingartíð og á Facebook má finna orðsendingu frá furðu lostnum miðaldra föður sem var að láta ferma son sinn. Hann spyr hvenær það hafi gerst að messuvíninu var skipt út fyrir ávaxtasafa í altarisgöngu við fermingu? „Bara boðið upp á vígðan Brassa til að dýfa oblátunni í, eins og ekkert væri.“

Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup á sæti í helgisiðanefnd Þjóðkirkjunnar og hann segir að þarna gæti einhvers misskilnings. Þetta sé ekki Brazzi sem menn súpa á þegar þeir meðtaka líkama og blóð Krists við altarið þegar fermt er.

Safi af þrúgum vínviðarins

Kristján Valur segir svo frá að fyrir margt löngu, um 1990, var því breytt innan kirkjunnar að blóð Krists væri alfarið áfengt vín um 13 prósent en, þá er vísað til orða Jesú þegar hann segir við síðustu kvöldmáltíðina að hann muni ekki neyta máltíðar með þeim eða af ávexti vínviðarins fyrr en í himnaríki. „Vínberjaþrúgurnar eru forsendan og það sem kemur frá þeim notum við í altarisgöngunni hvort sem það er gerjað vín eða ógerjaður safi,“ segir Kristján Valur.

Í samþykktum um innri málefni kirkjunnar má finna þetta um málið: „Meginregla er að nota við heilaga kvöldmáltíð vín, rautt eða hvítt. Blanda má það með vatni. Heimilt er að nota áfengisskert (óáfengt) vín. Sé ekki notað venjulegt vín eða alkóhólskert, til dæmis vegna takmarkaðs geymsluþols, er unnt að nota sérrí eða púrtvín, sem blanda má vatni. Heimil er notkun óáfengs þrúgusafa í altarisgöngunni.“

Kristján Valur vígslubiskup veit allt um helgisiði kirkjunnar, þar með talið notkun messuvíns.VISIR/GVA
Kirkjan mætir þörfum alkóhólista

Hér er því ekki um að ræða neinn djús. Kristján Valur segir að allur gangur sé á hvaða drykkur sé notaður þegar messuvínið er annars vegar. Menn nota sumir hvítvín, rauðvín sem og vín sem hefur verið blandað vatni og inniheldur því minna alkóhólmagn. Svo er um alkóhólskert vín að ræða, sem er um eitt prósent af styrkleika og svo í sérstökum tilfellum safa sem unninn hefur verið af þrúgu vínviðarins – þrúgusafi eða þrúgudjús. Kristján Valur vígslubiskup segir að um geti verið að ræða gerjað sem ógerjað vín. „Engin heimild til að nota annan ávaxtasafa.“ Þetta er gert til að girða fyrir þá hættu að menn færu að nota kók eða annan djús og var það því ekki samþykkt innan kirkjunnar.

Spurður segir Kristján Valur að ástæðan fyrir því að menn hurfu frá því að nota vín eingöngu væri einfaldlega vegna mikillar umræðu sem kom upp víða í Evrópu. „Stór hópur þeirra sem koma til kirkju eru alkóhólistar, fyrrverandi drykkjumenn, og til að skapa þeim þann möguleika að ganga til altaris þarf að bjóða þeim upp á óáfengan drykk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×