Vísir fékk að birta nokkrar myndir úr tökunum af senu sem tekin er í fiskbúð.
„Þetta eru þær Gobba og Lalla. Þær unnu áður í mötuneyti og spurðu alltaf: Viltu sósu? Nú eru þær hættar að þjóna í ríkisreknu mötuneyti og komnar með eigin bisness, fiskbúð,“ segir Brynhildur sem leikur annan hluta tvíeykisins á móti Guðlaugu Elísabetu Ólafsdóttur. Aðspurð um hvers konar fiskmeti þær selja er Brynhildur afar dul.

Óskar Jónasson leikstýrir seríunni en margir hafa beðið með mikilli eftirvæntingu eftir nýjum Stelpum.
„Þetta eru sömu bullhausarnir sem búa þetta til en eru jafnframt búnir að sjá meira í millitíðinni og hafa víðari skírskotanir og betri tengingar í lífið. Það var mjög gaman að fara á þennan stað aftur. Gömlu þættirnir eldast svakalega vel að mínu mati og það er breiður hópur áhorfenda sem hefur áhuga á þessu. Börn geta alveg horft á þetta og upplifað grínið, kannski á aðeins annan hátt. Eldra fólki finnst þetta líka skemmtilegt. Það er svo ótrúlega gott að fá að hlæja dálítið og hlæja á fallegan hátt. Þetta er allt saman grín sem kemur frá góðum stað í sálu höfunda,“ segir Brynhildur.

