Lífið

Kvartar ekki yfir neinu

Afmælisbarnið "Það verður ekki haldið upp á afmælið með veislu fyrr en í ágúst. Þá munum við besta vinkona mín slá saman fertugsafmælum okkar og bjóða til risaveislu.“Fréttablaðið/Vilhelm
Afmælisbarnið "Það verður ekki haldið upp á afmælið með veislu fyrr en í ágúst. Þá munum við besta vinkona mín slá saman fertugsafmælum okkar og bjóða til risaveislu.“Fréttablaðið/Vilhelm
Ég er eins og er í níu til fimm vinnu sem „casting director“ hjá Reykjavík Studios fyrir sjónvarpsþáttaröð sem heitir Ófærð þannig að ég mun nú bara mæta í vinnuna eins og venjulega,“ segir Selma spurð hvernig hún ætli að fagna fertugsafmæli sínu í dag. „Ég mun vakna snemma og borða góðan morgunmat með krökkunum mínum áður en ég fer að vinna og bjóða svo mínu nánasta fólki í kokteil milli sex og átta. Eftir það ætla ég út að borða með þeim sem nenna en það verður ekki haldið upp á afmælið með veislu fyrr en í ágúst. Þá munum við besta vinkona mín slá saman fertugsafmælum okkar og bjóða til risaveislu.“



Selma er tilnefnd til Grímuverðlaunanna, sem veitt verða á mánudaginn, bæði sem leikkona ársins í aðalhlutverki og söngvari ársins fyrir hlutverk sitt í söngleiknum Spamalot. Þetta er í fyrsta sinn sem hún er tilnefnd sem leikkona og er hún að vonum ánægð með það. „Ég er auðvitað bara rosalega sátt við það,“ segir hún og hlær. „Ég fer yfirleitt alltaf á Grímuna til að samgleðjast kollegum, enda er þetta uppskeruhátíð þar sem við klöppum hvert öðru á bakið og alltaf gott partí. Ég á nú alls ekki von á að fá verðlaunin, enda finnst mér heiðurinn aðallega vera fólginn í tilnefningunum og hefur alltaf fundist. Auðvitað væri gaman að vinna, það er alltaf gaman að fá verðlaun, en ég reikna alls ekki með því.“



Eftir sumarfrí í Frakklandi fer Selma til New York til að vinna í Hróa hetti með Gísla Erni og síðan til Svíþjóðar til að leikstýra. „Í janúar á næsta ári mun ég svo byrja að leikstýra þungarokksöngleik eftir Hugleik Dagsson og Sigurjón Kjartansson í Þjóðleikhúsinu, þannig að næsta leikár er löngu fullbókað. Auk þess er ég alltaf að syngja hér og þar annað slagið. Ég vinn svo fjölbreytt störf að ég fæ útrás á öllum þeim sviðum sem ég þarf að fá útrás á og get ekki kvartað yfir einu né neinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.