Lífið

Stelpur mega ekki kúka

Sigga Dögg kynfræðingur skrifar
sp: Ég hef velt einu fyrir mér og rætt við marga stráka og vinkonur mínar en hvað er þetta með að stelpur megi ekki kúka? Margar vinkonur mínar tala um að þær varla prumpi fyrir framan kærastann sinn og ekki sjens að fara á klósettið með hann inni á salerninu en ég skil þetta ekki. Ég held þær haldi að þá verði þær ekki lengur kynverur í þeirra augum (sagði ein vinkona mín orðrétt). Veistu hvaðan þetta kemur og er þetta algengt viðhorf?

svar: „Sætar stelpur hafa ekki hægðir“ sönglaði, eða öllu heldur öskraði, hljómsveitin Botnleðja fyrir um tuttugu árum. Mér hefur alltaf þótt þetta mjög merkilegt fyrirbæri og hélt, eins og þú, að þetta væri bundið við minn vinkonuhóp eða karlmenn sem búa í póstnúmerinu 101. Nú bara nýlega las ég pistil af þekktu bandarísku „mömmubloggi“ þar sem þetta var listað sem eitt af því allra heilagasta. Það mátti ekki tala um kúk, prumpa, viðurkenna að kúka eða hafa makann inni á salerninu á meðan einhvers konar salernistengd hegðun var viðhöfð. Samkvæmt þeirri úttekt þá var það gert til að viðhalda einhvers konar „dulúð“. Einmitt. Stelpur, sérstaklega ekki sætar stelpur, kúka ekki og pruma bara blómalykt. Meira að segja dömurnar í „Beðmál í Borginni“ féllu í þessa gildru. Ég hef líka sérstaklega gaman af þessum ótta í aukinni umræðu um endaþarmsörvun því margir virðast halda að rassinn sé eins og hnappur sem hægt sé að panta hægðir úr. Þetta fer því ekki saman. Ef þú potar í rass þá sprengist ekki á þig saur (nema viðkomandi þurfi einmitt að hafa hægðir á þeim tímapunkti) en samt þurfa allar manneskjur á einhverjum tímapunkti að hafa hægðir.

Ég held að þetta sé úrelt mýta sem haldið er á lofti af stúlkum sem leiðist að tala um hægðir. Ekkert dýpra eða flóknara. Það get ég svosum vel skilið. Mér finnast hægðir leiðinlegt umræðuefni og ég finn ekki þörf til að ræða það sérstaklega við maka minn, en ég get það samt ef ég þarf þess.

Þegar ég var rétt um tvítugt skrifaði ég pistil um stúlkur og „númer 2“ og eftir birtingu hans var ég ítrekað kölluð „kúkastelpan“ þegar ég fór að skemmta mér. Í því leynist mikil kaldhæðni því ég einmitt sönglaði hvað manna hæst með þessu annars ágæta lagi Botnleðju. En þetta var fyrir rúmum tíu árum. Nú veit ég betur og á vinkonur sem deila með mér sorgum og sigrum á salerninu og maka sem fetast ekki útí stóran bunka af feminísku lesefni við klósettskálina. Áfram veginn segi ég alltaf, opnum umræðuna og eyðum mýtum. Allir kúka einhver tíma, helst reglulega annars getur það verið merki um að eitthvað sé að. Sjáðu bara drottninguna Oprah, hún hefur gert heilu sjónvarpsþættina um hægðir, bæði sínar og annarra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.