Lífið

Litla sæta uglan toppar allar gjafirnar

Marín Manda skrifar
Birta Björnsdóttir ásamt liltu uglunni.
Birta Björnsdóttir ásamt liltu uglunni. Myndir/ Úr einkasafni
„Ég er dýrasjúk og hef alltaf verið. Er hún ekki sæt? Hún er með loðin augnlok og löng augnhár. Jeminn eini sko,“ segir Birta Björnsdóttir fatahönnuður hlæjandi þegar blaðamaður nær tali af henni í Barcelona.

Hin mánaðar gamla ugla var afmælisgjöf frá Jóni Páli Halldórssyni, eiginmanni Birtu, sem að pantaði hana frá löggildum ugluræktanda í Alicante. Jón Páll hefur verið hugmyndaríkur í gegnum tíðina með dýragjöfum. „Hann hefur kannski verið að fylla upp í þetta tóm því mig er farið að langa í annað barn,“ segir hún og hlær.

„Hann er duglegur að gefa mér dýr í afmælisgjafir og hefur áður gefið mér kanarífugla, páfagauk, frosk í búri og californian king-snák. Við höfum einnig átt þrjá stóra páfagauka og þar á meðal einn cockatoo-talfugl, en ég hef alltaf verið sjúk í uglur svo það er ekkert sem toppar hana. Núna erum við með kamelljón á heimilinu og síðhærðan naggrís,“ segir Birta.

Litla uglan hefur ekki ennþá fengið nafn.
Til eru þrettán viðurkenndir kynþættir af litlu uglunni bæði í Evrópu og Asíu. Litla uglan sem send var í kyngreiningu er karlkyns og líkist einna helst vinsælu Furby-dýraleikföngunum. 

„Tegundin nefnist Little owl og var helguð gyðjunni Aþenu svo ef hún hefði verið stelpa þá hefðum við skýrt hana Aþenu. Nú erum við öll að venjast henni og fljótlega förum við að temja hana með ákveðnu hljóði, sem hún tengir við mat. Ég hef annars verið að klippa niður mýs og kornhænur í litla bita og mata hana.“ 

Fjölskyldan er hrifin af kamelljóninu sem er á heimilinu.
Birta býr ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum uppi í fjallshlíð í bænum Fontpineda fyrir utan Barcelona á Spáni. Þangað fluttu þau til að upplifa nýtt ævintýri en eiginmaður hennar vinnur sem húðflúrari inni í Barcelona.

Birta hefur þó ekki slegið slöku við í hönnun sinni á merkinu Júniform og hannar munstur og saumar prótótýpurnar að flíkunum á vinnustofu sinni og sendir til Íslands þar sem framleiðslan fer fram. Vinkona hennar sér um verslunina í Hafnarfirði ásamt öðrum samstarfsaðilum sem Birta hefur unnið með í um tíu ára skeið.

„Ég er með rosalega gott fólk sem vinnur með mér á Íslandi. Búsetan hér úti hefur verið ótrúlegt ævintýri þrátt fyrir að fyrsta árið hafi verið svolítið erfitt í borginni með krakkana. Við ákváðum svo að upplifa meiri náttúru og fluttum 40 mínútur frá borginni þar sem er skógur allt í kring og yndislegt að vera. Krakkarnir dafna vel, tala katalónsku og við erum búin að eignast fullt af góðum vinum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.