Innlent

„Svo mikil fyrirlitning á skoðunum annarra að ég get ekki samsamað mig með slíku fólki“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Ragnheiður Ríkharðsdóttir er þingflokssformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir er þingflokssformaður Sjálfstæðisflokksins. vísir/gva
„Ég ætla að vera áfram í Sjálfstæðisflokknum,“ sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í þættinum Sunnudagsmorgun í morgun. Hún segist ekki ætla að ganga í nýjan Evrópusinnaðan hægriflokk verði hann stofnaður en gagnrýnir þó harðlega stefnu flokksins í Evrópumálum.

Ragnheiður var gestur þáttarins ásamt Ólafi Stephensen, ritstjóra Fréttablaðsins, og segist Ólafur búast fastlega við því að flokkurinn verði stofnaður.

Gísli Marteinn Baldursson, umsjónarmaður þáttarins, spurði Ragnheiði út í ummæli fólks innan flokksins um að það væri „góð grisjun“ að losna við fólk eins og hana úr flokknum.

„Þetta er mjög algengt í Staksteinum Morgunblaðsins, leiðara Morgunblaðsins og Reykjavíkurbréfinu um það að fólk sem hefur þá skoðun sem ég hef sé óæskilegt í Sjálfstæðisflokknum,“ segir Ragnheiður.

„Veistu, ég gef ekkert fyrir það, þó að þar sé fyrrverandi formaður flokksins að skrifa, oftast nær, þá finnst mér það vera svo mikil fyrirlitning á skoðunum annarra að ég get ekki samsamað mig með slíku fólki. Ef Sjálfstæðisflokknum á Íslandi, flokki sem er að verða 85 ára gamall, finnst það góð grisjun að ekki séu allir á einni skoðun þá á þessi flokkur bara ekkert heima. Ef hann ætlar bara að vera einstefnuflokkur og einstrengingslegur flokkur þá náttúrulega er hann að missa það sem hann hafði og hefur haft í gegnum tíðina, allt að 40 prósenta fylgi landsmanna, sem er dottið niður í 26 prósent og við þurfum að hugsa út frá því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×