Innlent

Hefndarklám er grafalvarlegt ofbeldi

Fórnarlömb hefndarkláms hafa leitað til Stígamóta.
Fórnarlömb hefndarkláms hafa leitað til Stígamóta. Vísir/Daníel
„Þetta er alvarleg birtingarmynd ofbeldis og fólk er berskjaldað fyrir þessu. Ef eitthvað er komið á netið þá er það orðið eilíft og þú verður að gjöra svo vel að lifa með því,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, um svokallað hefndarklám.

Í hefndarklám er dreifing á kynferðislegum myndum gegn vilja þess sem er á myndunum.

Þingflokkur Bjartrar framtíðar hefur lagt fram frumvarp sem felur í sér að hefndarklám verði bannað og gert refsivert.  Guðrún segist fagna frumvarpinu. Til Stígamóta hafi fórnarlömb hefndarkláms leitað og býst Guðrún við að það aukist með meiri umræðu og vitundarvakningu.

Guðrún Jónsdóttir Fórnarlömb hefndarkláms hafa leitað til Stígamóta.Fréttablaðið/GVA
„Þetta er ofbeldisform sem við höfum lengi verið að vinna með. Ráðin eru tekin af fólki og ákaflega persónulegu myndefni dreift gegn vilja þess. Um leið og búið er að setja myndefnið inn á netið þá er það orðið óskilanlegt,“ segir Guðrún.

Að sögn Guðrúnar hefur ekki verið tekinn saman aldur þeirra sem leita til Stígamóta vegna þessara mála en yfirleitt séu það ungar konur.

„Það er mjög þarft að taka á þessum málum. Á næsta ári verða Stígamót 25 ára. Þá ætlum við að leggja áherslu á kynferðislega áreitni og ofsóknir og þetta er ein birtingarmynd þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×