Lífið

Skólán frá Jesú

Sigrún Dís Hauksdóttir segir stíl sinn vera stelpulegan og gauralegan í senn.
Sigrún Dís Hauksdóttir segir stíl sinn vera stelpulegan og gauralegan í senn. mynd/ernir
Sigrún Dís Hauksdóttir er forseti Nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Hún lenti í óborganlegu tískuslysi eftir grímuball á Selfossi.



Hvenær kviknaði tískuáhuginn?

Tískuáhuginn fór hratt vaxandi þegar ég byrjaði í menntaskóla því í Verzló ríkir mikill áhugi á tísku.

Hvernig lýsirðu eigin stíl?

Ég hef síbreytilegan stíl, allt frá sætum blómakjól yfir í að vera hálf „gauraleg“ en snjóbrettaáhugi minn kveikti á þeim stíl.

Hvaðan hefurðu tískuvitið?

Ætli ég hafi það ekki frá dætrum tvíburasystur mömmu. Þær hafa verið fyrirmyndir mínar á flestum sviðum frá því ég man eftir mér. Ég fæ samt innblástur af eigin stíl mestmegnis í skólanum og á netinu.

Áttu þér uppáhaldstískuverslanir?

Já, ég byrja yfirleitt í ódýru keðjunum eins og H&M og Forever 21 þegar ég fer í verslunarferðir til útlanda; annars er ég ástfangin af TopShop og vintage-búðum og finnst ekkert smá gaman að gramsa. Stemningin þar inni fær mann til að ganga skrefinu lengra. Mér finnst þó að notuð föt mættu vera ódýrari.

Eyðir þú miklu í fatakaup?

Já, stór hluti launa minna fer í föt.

Hefurðu lent í tískuslysi?

Já, mér dettur ein spaugileg uppákoma í hug. Þá fór ég á grímuball á Selfossi og gisti hjá vinkonu minni. Morguninn eftir keyrði ég beint frá Selfossi í skólann, samferða bekkjarbróður mínum. Ég hafði verið á hælum á ballinu en gleymt aukaskóm svo skóladaginn þann var ég í sandölum númer 44 sem ég fékk lánaða hjá bekkjarbróður mínum sem var Jesús á grímuballinu.

Hver er þinn helsti veikleiki þegar kemur að tísku?

Ég er veik fyrir jökkum og hálsmenum.

Hvað yrði fyrir valinu ef þú mættir kaupa þér eina nýja flík í dag?

Mig langar í fallega kápu í lit eða munstri. Ég hef samt ekki látið það eftir mér því kápur eru svo dýrar. Þegar ég kaupi dýra flík vil ég geta notað hana oft en mér finnst óþægilegt að klæðast sömu flíkinni oft ef hún er áberandi. Því eru kápurnar mínar frekar látlausar.

Hvaða litur klæðir þig best?

Ljósir litir.

Áttu þér uppáhaldsflík?

Já, það er svarti bomber-jakkinn minn.

Hverju klæðistu við sparileg tilefni?

Háum hælum, sparilegum jakka eða kápu, og kjól eða pilsi. Ég er sjaldan í buxum þegar ég klæði mig fínt.

Ertu liðtæk á saumavélina og að sauma á þig sjálf?

Ég kann að fikta mig áfram en hendi frekar fötunum mínum í Ruth vinkonu eða Sólborgu frænku ef ég þarf að breyta eða bæta.

Ertu hrifin af skartgripum?

Já, ég á mikið af áberandi hálsmenum.

Hvaða ilmvatn notar þú?

Beyonce Heat í rauða glasinu.

Hvaða einn hlutur er ómissandi í snyrtibuddunni?

Hyljarinn frá Make Up Store.

Hvað er það besta við haust- og vetrartískuna?

Treflar og kápur.

Áttu þér tískufyrirmynd?

Ekki beint, en Mary Kate og Rihanna eru oft mjög töff.

Lumarðu á góðu fegrunarráði?

Að hita augnhárabrettarann með hárblásara. Þá haldast augnhárin krulluð út daginn og líta út fyrir að vera lengri.

Kjóll, pils eða buxur?

Ég er mjög hrifin af pilsum fyrir fínni tilefni því hægt er að vinna svo mikið með þau. Annars kýs ég buxur dagsdaglega.

Einlitt eða munstrað?

Munstrað er skemmtilegra þótt ég eigi mun meira af einlitum fötum.

Háir hælar eða flatbotna?

Undantekningarlaust háir hælar þegar ég fer eitthvað fínt en hvunndags er ég langoftast í flatbotna skóm.

Eru Verzlingar meðvitaðri um tískuna en aðrir framhaldsskólanemar?

Mér finnst tíska vera þannig að enginn er með meira vit en annar. Allir hafa sinn eigin stíl. Að sjá hugmyndir annarra gerir tískuna áhugaverða og skemmtilega. Hins vegar er hægt að hafa mismikinn áhuga á tísku og mismikinn metnað fyrir því að vera töff. Margir í Verzló hafa mjög mikinn áhuga á tísku og okkur þykir gaman að vera vel til fara.

Hvað einkennir klæðaburð Verzlinga?

Verzlingar eru almennt mjög snyrtilegur og erfitt að mæta of fínn á viðburði Verzlinga.

Þarf forseti NFVÍ að vera fyrirmynd annarra í klæðaburði og góðum siðum?

Ég hef ekki fundið fyrir þeirri kröfu að þurfa að klæða mig á ákveðinn hátt en hins vegar þykir mér mikilvægt að vera góð fyrirmynd almennt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.