Innlent

Nýjar stúdentaíbúðir slá lítt á brýna þörf

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Áætlað er að um 800 umsækjendur verði á biðlista eftir leiguhúsnæði á Stúdentagörðum hjá Félagsstofnun stúdenta (FS) svo þær 300 leigueiningar sem teknar voru í gagnið síðastliðinn vetur duga skammt til að svara þörfinni. Árið 2005 voru helmingi færri á biðlista.

Úthlutun lýkur á næstu dögum og er útlit fyrir að 1.800 umsóknir komi á borð FS rétt eins og í fyrra. Félagsstofnunin hefur yfir um rúmlega 1.100 leigueiningum að ráða og í þeim búa 1.600 manns eða einungis helmingi fleiri en þeir sem verma biðlistann í ár.

Um hundrað stúdentaíbúðir munu þó bætast við haustönnina 2016 en í haust hefjast framkvæmdir við bygginguna í Brautarholti, að sögn Rebekku Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa FS. Hún segir enn fremur að til skoðunar séu fleiri staðir í borginni fyrir byggingu fleiri íbúða, til dæmis á Háskólalóðinni og svo flugvallarsvæðið ef svo skyldi fara í náinni framtíð að byggt yrði þar.

Rebekka segir að áður hafi þynnst flokkurinn á biðlistum eftir að úthlutun íbúða lauk sem gefur til kynna að margir hafi fundið sér annan stað. En síðustu tvö ár hefur þetta hins vegar breyst þannig að biðlistarnir styttast lítið þó líði á skólaárið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×