„Ég og Öddi erum ágætis vinir og það er einnig eitt af mínum áramótaheitum að hjálpa honum að hætta að reykja. Ég stend þétt við bakið á honum og styð hann,“ segir Pétur Georg Markan, framkvæmdastjóri Héraðssambands Vestfirðinga og vinur Mugisons. Hann bætir við að sér þyki það stórmannlegt að strengja áramótaheit í því að hjálpa öðrum. „Það er samfélagsleg skylda mín að lengja í lífi helstu þjóðarhetju Íslendinga. Öddi er eins og handritin hans Árna, það verður einhver að taka það að sér að varðveita hann,“ bætir Pétur við léttur í lundu.
Mugison segist ekki nota nikótínplástra eða -tyggjó til aðstoðar. „Ég nota ekki neitt slíkt, ég hætti þessu bara náttúrulega,“ bætir Mugison við.
Hann segist fara í göngutúra reglulega, enda sé Pétur duglegur við að fara með hann út að ganga. „Pétur hefur einnig lánað mér hugleiðsludiskana sem Friðrik Karlsson hefur gefið út, ásamt því að benda mér á stórgóðu síðuna reyklaus.is,“ útskýrir Mugison og bætir við að sé þyki hugleiðslutónlistin heillandi.

Annars telur hann að reykingar séu deyjandi. „Ætli við í Dröngum höfum ekki verið eina hljómsveitin á Íslandi þar sem allir meðlimirnir reyktu, reykingamönnunum er alltaf að fækka.“
Þessa dagana er hann vinna í tónlist fyrir leikritið Óskasteina eftir Ragnar Bragason sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu undir lok mánaðarins.
„Þetta er í annað sinn sem ég vinn með Ragnari, því ég sá einnig um tónlistina í leikritinu Gullregni, þetta er æðislega gaman.“ Þá er hann einnig byrjaður að vinna að nýrri plötu.