Erlent

Frakklandsforseti fordæmir ofbeldið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fátæklegar búðir rómafólks hafa lengi verið þyrnir í augum margra betur staddra íbúa landsins.
Fátæklegar búðir rómafólks hafa lengi verið þyrnir í augum margra betur staddra íbúa landsins. Vísir/AFP
Múgur manns réðst á sextán ára pilt og barði til óbóta. Hann liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi og er haldið sofandi, þar sem kvalir hans voru orðnar óbærilegar.

Pilturinn, sem sagður er heita Darius, er af rómafólki. Hann hafði verið sakaður um þjófnað.

Rúmlega tíu manns réðust inn í búðir rómafólks skammt norður af París á föstudagskvöld og námu piltinn burt. Um 200 manns flúðu úr búðunum sama kvöld. Pilturinn fannst síðan stórslasaður í innkaupavagni við vegarkant.

Francois Hollande Frakklandsforseti sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hann fordæmdi árásina og sagði að allt kapp verði að leggja á að finna ofbeldismennina.

Árásum á rómafólk hefur fjölgað mikið í Frakklandi undanfarið. Það býr margt í fátæklegum búðum sem hróflað hefur verið upp við þjóðvegi landsins. Það er iðulega sakað um þjófnað og verður fyrir margvíslegum fordómum.

Staða rómafólks hefur verið mikið til umræðu í Frakklandi síðustu misserin, eða allt frá því að Nicolas Sarkozy, þáverandi forseti, tók sér fyrir hendur að láta rífa búðir þess og sagði þær gróðrarstíu glæpa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×