Lífið

„Það er sexí að vera duglegur“

Baldvin Þormóðsson skrifar
Vinnustofan ásamt sýningarrými eru um 350 fermetrar að stærð.
Vinnustofan ásamt sýningarrými eru um 350 fermetrar að stærð. mynd/Sunneva Ása Weisshappel
Þegar verkefnið hófst var ekkert eiginlegt markmið annað en að búa til starfvettvang fyrir listamenn, segir Sunneva Ása Weisshappel en hún setti nýlega á fót vinnustofuna Algera Studio ásamt myndlistarmanninum Ými Grönvold. Þau útskrifuðust bæði úr listnámi fyrir um ári síðan, Sunneva úr Listaháskóla Íslands og Ýmir úr Myndlistarskóla Reykjavíkur.

„Í námi hefur maður aðgang að góðri vinnuaðstöðu sem tapast eftir útskrift,“ segir Ýmir en tvíeykið ákvað því að taka málin í sínar eigin hendur og fengu til leigu rými upp á Höfða. Miðsvæðis er skortur á stórum rýmum þar af leiðandi leituðu þau út fyrir 101 Reykjavík.

„Miðbærinn er að taka á sig nýja mynd, listamenn eru að missa aðstöður í massavís sem eru að fara undir ferðamennsku og skrifstofugímöld. Við það hverfa tækifærin sem miðbærinn bauð áður upp á,“ segir Sunneva og bætir við að það sé í raun kómískt því að hingað koma erlendir ferðamenn til þess einna helst að skoða menningu og náttúru.

Sunneva Ása og Ýmir hafa unnið í heilt ár við að gera rýmið að almennilegri vinnustofu.mynd/Sunneva Ása Weisshappel
Listamenn úr öllum áttum

Vinnustofan hefur verið í uppbyggingu í rúmt ár þar sem margir hafa lagt sitt að mörkum og gert aðstöðuna að því sem hún er orðin í dag. „Það er frábært að hafa fólk úr ólíkum áttum sem vinnur á sama stað og deilir þekkingu og reynslu,“ segir Kristín Þorláksdóttir.

Hópurinn sammælist um að „það er sexí að vera duglegur“  þar sem framtaksemi, atorka og dugnaður eru í fyrirrúmi. Rýmið takmarkast ekki við einn listmiðil og skapar vettvang til samtals á milli listgreina; dans, leiklist, myndlist, vídjólist, ljósmyndun, götulist, tónlist og allt þar á milli.

Deila þekkingu sinni með hvort öðru

Ásamt því að vera vinnustofa heldur Algera t.d. opin námskeið í módelteikningu og stefnir á að bjóða upp fleiri tíma þar sem fólk kemur saman og deilir þekkingu í undirstöðugreinum listsköpunar. „Hugmyndin er að listamenn deili þekkingu sinni og það sé enginn fastur leiðbeinandi,“ segir Ýmir og bætir því við að listkennsla á Íslandi gæti verið aðgengilegri.

„Það er mikil gróska í listasenunni sem gerir það að verkum að við þurfum ekki lengur að leita langt yfir skammt og tækifæri eru að skapast út um allt land,“ segir Katrína Mogensen. Hópar og verkefni spretta út um allt land og listamenn geta ferðast og sýnt verk sín landshorna á milli heilu sumurin vegna sköpunaröldu sem ríður yfir landið.

Sumarhátíð framundan

„Okkur langar að búa til tengslanet á milli svæða sem gerir okkur kleift að skiptast á rýmum bæði innanlands og hvar sem er í heiminum,“ segir Nanna. Listamenn verða að standa saman. En Algera er einnig residensía sem hefur milligöngu fyrir erlenda listamenn við listasenuna hér heima.

Í dag myndar hópurinn ásamt Sunnevu og Ými; Anní Ólafsdóttir, Katrína Mogensen, Klavs Liepins, Kristín Þorláksdóttir, Lukka Sigurðardóttir, Nanna María Björk Snorradóttir og Thelma Marín Jónsdóttir.

Framundan hjá Algera Studio er sumarhátíð þar sem lagt verður upp með að koma miðbæjarrottunum út úr 101 og sýna fram á dásemdir úthverfanna. Rútuferð frá Hlemmi verður auglýst síðar. Einnig verður Jónsmessuhátíð, tónlistarviðburðir, allskonar uppákomur og gjörningar sem bæði verða innan veggja vinnustofunnar og víðar í sumar.

Hægt er að skoða það sem fram fer innan veggja Algeru Studio á heimasíðunni Algerastudio.com.Hér fyrir neðan má sjá nýtt tónlistarmyndband Gus Gus við lagið Crossfade sem skotið var að hluta til innan veggja Algera Studio.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×